Play tilkynnir endalokin - hættir starfsemi
Stjórn Fly Play hf. hefur tekið þá ákvörðun að hætta starfsemi og hafa öll flug félagsins verið felld niður frá og með deginum í dag, 29. sept. Unnið verður náið með yfirvöldum og starfsfólki við að innleiða þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til þess að leggja niður starfsemi félagsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.
„Ástæður þessarar ákvörðunar eru margar, þ.m.t.; rekstur félagsins hefur lengi gengið verr en vonir stóðu til, flugmiðasala hefur ekki gengið vel síðustu vikur og mánuði í kjölfar neikvæðrar fjölmiðlaumfjöllunar um reksturinn og þá hefur ríkt ósætti á meðal hluta starfsmanna félagsins vegna breytinga á stefnu þess.“
Í ljósi ofangreinds bindur PLAY enda á sína starfsemi í dag. Ljóst er að þúsundir farþega þurfa að endurskipuleggja heimför, á um það bil 400 missa vinnuna og samstarfsaðilar fyrirtækisins verða fyrir tjóni. Við þetta tilefni leggja stjórn og stjórnendur PLAY áherslu á að allt hafi verið reynt til þess að niðurstaðan yrði önnur. Þessi ákvörðun er sú allra þungbærasta í stöðunni og er hún aðeins tekin í ljósi þess að aðrar leiðir töldust fullreyndar. Stjórnin biður alla þá sem verða fyrir neikvæðum afleiðingum vegna þessarar niðurstöðu innilega afsökunar.“