Vinnuskóli Reykjanesbæjar mikilvægur vettvangur fyrir ungmenni
Lýðheilsuráð Reykjanesbæjar fékk kynningu á starfsemi Vinnuskólans sumarið 2025 á fundi sínum 2. september. Ólafur Bergur Ólafsson, forstöðumaður Vinnuskólans, og Gunnhildur Gunnarsdóttir, forstöðumaður Fjörheima og 88 hússins, fóru yfir starfsemina og helstu niðurstöður uppgjörsins.
Samkvæmt samantekt störfuðu 739 ungmenni í Vinnuskólanum í sumar, sem er um 79% af heildarfjölda í viðkomandi árgangi. Þar af unnu 59% í hefðbundnum störfum á vegum bæjarins og 41% í samstarfsverkefnum með æskulýðs- og íþróttafélögum og stofnunum. Einnig var boðið upp á sértækan hóp fyrir ungmenni með stuðningsþarfir.
Lýðheilsuráð þakkaði starfsfólki og ungmennum fyrir vel unnin störf og tók undir mikilvægi þess að Vinnuskólinn sé vettvangur fyrir samfélagslega þátttöku og forvarnir. Sérstaklega var bent á mikilvægi þess að 17 ára unglingar geti tekið þátt, og að horfa þurfi til þessa við vinnu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2026.