SSS uppbyggingarsjóður
SSS uppbyggingarsjóður

Íþróttir

Upphitun fyrir körfuknattleikstímabilið: UMFG þekkir ekkert annað en stefna á titla
Þorleifi Ólafssyni hlakkar til að keppa á ný í Grindavík
Miðvikudagur 1. október 2025 kl. 10:00

Upphitun fyrir körfuknattleikstímabilið: UMFG þekkir ekkert annað en stefna á titla

„Það verður gaman að koma til Grindavíkur að leika á ný, við munum spila fyrsta heimaleikinn þar þriðjudaginn 7. október,“ segir Þorleifur Ólafsson, þjálfari kvennaliðs UMFG. Lalli hefur verið ánægður með stígandann á undirbúningstímabilinu og er ánægður með hópinn en þurfti að gera eina breytingu á erlendum leikmanni, leit stendur yfir að nýjum leikmanni. Grindavík mun áfram leggja allt í sölurnar til að keppa um titla vetrarins.

Eins og karlalið UMFG, æfir Grindavík bæði í Smáranum og í Grindavík og mun leika nokkra leiki í Grindavík á tímabilinu.

„Það hefur verið góður stígandi hjá okkur á undirbúningstímabilinu. Við unnum tvo leiki og töpuðum einum í æfingamóti sem haldið var í Grindavík. Við ákváðum að gera breytingar á erlendum leikmanni eftir mótið, sú gríska var ekki að passa nógu vel inn í það sem við viljum gera og við erum að leita að nýjum leikmanni. Við verðum með fjóra útlendinga en ég er mjög ánægður með að hafa náð í Emilie Hesseldal frá Njarðvík og Kaninn okkar, Abby Claire Beeman stóð sig frábærlega með Hamar/Þór Þ í fyrra og við væntum mikils af henni. Við teljum okkur vera með lið sem getur keppt við öll lið og markmiðin eru skýr fyrir tímabilið, að keppa um titlana.

Bílakjarninn frá sept. 25
Bílakjarninn frá sept. 25

Undirbúningstímabilið hófst af krafti eftir verslunarmannahelgi, útlendingarnir voru komnir í byrjun september og það hefur verið góður stígandi hjá okkur. Ég þurfti ekki að glíma við sama vandamál og Jóhann bróðir, við vorum nægilega margar á æfingum og þær gengu vel. Við tókum upp samstarf við Breiðablik, erum með þrjár ungar stelpur sem munu keppa með okkur og svo með sameiginlegu liði Breiðabliks/Grindavíkur í 12. flokk.

Við ætlum öll að bæta okkur í vetur, bæði við þjálfararnir og allir leikmenn og ef það gengur eftir þá er ég viss um að við munum eiga gott tímabil.“

Spennandi tímabil og leikið í Grindavík

Lalli á von á að sömu lið muni berjast og voru í fararbroddi á síðasta tímabili.

„Þetta er held ég gamla sagan, Njarðvík, Keflavík og Haukar. Svo er alltaf spurning með önnur lið sem gætu strítt, Valskonur verða sterkar held ég en ég geri ráð fyrir að þetta verði sterkasta kvennadeild frá upphafi, gæðin eru orðin gífurlega mikil og fáir ef nokkrir leikir sem lið ganga að sem vísum sigri. Það eru komnir það margir öflugir erlendir leikmenn, hér áður fyrr voru það liðin sem voru með besta íslenska kjarnann en það er ekki lengur þannig.

Það verður gaman að koma til Grindavíkur og keppa á ný, við leikum fyrsta heimaleikinn okkar þar, á móti Ármanni þriðjudagskvöldið 7. október. Ég vona að Grindvíkingar hvar sem þeir búa, muni fjölmenna á alla leikina okkar, hvort sem þeir verði spilaðir í Smára eða í Grindavík. Við viljum öll komast heim sem fyrst en þurfum að gera þetta í skrefum, ég mun gera það sem ég get til að við komumst alfarið heim en hvenær það verður getur enginn sagt til um. Ég segi að við verðum pottþétt alkomin heim á næsta tímabili en vonandi fyrr, þetta kemur allt saman í ljós,“ sagði Lalli að lokum.

Safnahelgi 2025
Safnahelgi 2025