Sigur í fyrsta leik hjá Njarðvíkurkonum
Íslandsmótið í körfuknattleik, Bónusdeildin, hófst í gær og voru Njarðvíkurkonur á meðal þeirra liða sem hófu leik, þær unnu Stjörnuna á útivelli örugglega, 64-81.
Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta og stóðu leikar 18-18 að honum loknum en Njarðvík vann alla leikhlutana eftir það, leiddi með sjö stigum í hálfleik og unnu að lokum öruggan sigur.
Brittany Dinkins var að vanda framlags- og stigahæst (30, 26) og hin íslensk-bandaríska Danielle Rodriguez var með 19 stig, 26 í framlag. Paulina Hersler var með 13 stig og 8 fráköst og Njarðvík gekk best á meðan hennar naut við (+22).
Njarðvíkingarnir í liðinu skiluðu sínu og stóð hin nýja Helena Rafnsdóttir sig best þeirra, var með 13 stig og 8 fráköst, 17 í framlag.