SSS uppbyggingarsjóður
SSS uppbyggingarsjóður

Mannlíf

Nóg að sjá og upplifa á Safnahelgi á Suðurnesjum
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 11. október 2025 kl. 18:09

Nóg að sjá og upplifa á Safnahelgi á Suðurnesjum

Fyrri dagur Safnahelgar á Suðurnesjum er á enda. Fjölmargir gestir hafa heimsótt sýningar og söfn á Suðurnesjum og tekið þátt í viðburðum í tilefni dagsins.

Ljósmyndari Víkurfrétta kom við á nokkrum stöðum í Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ í dag og smellti af myndum en einnig eru viðburðir í Sveitarfélaginu Vogum og Grindavík.

Bílakjarninn frá sept. 25
Bílakjarninn frá sept. 25

Á Garðskaga er listamaðurinn Bragi Einarsson með sýningu á verkum sínum á Byggðasafninu. Bragi var á sýningarsvæðinu í dag og var að vinna í listinni og málaði einar tvær myndir og leyfði gestum að sjá hvernig málverk verður til.

Á Hvalsnesi var staðarleiðsögn í Hvalsneskirkju þar sem Magnea Tómasdóttir, sem á rætur á Hvalsnesi, sagði frá staðháttum og hvernig lífið var á Hvalsnesi á árum áður en amma Magneu er fædd þar og uppalin. Magnea er líka ein af þeim sem standa að Kaffi Golu og þar var ljóðalestur í dag þar sem fólk gat nært hugann og sálina en einnig líkamann en í Golu má fá góðar veitingar.

Frá Hvalsnesi fór ljósmyndari blaðsins í Bókasafn Reykjanesbæjar í Hljómahöll. Þar var Gunnhildur Þórðardóttir að lesa eigin ljóð fyrir gesti og gangandi. Eftir að Gunnhildur hafði lesið fyrir gesti bókasafnsins fór hún í Svarta pakkhúsið við Hafnargötu og var þar með ljóðagjörning.

Í Duus safnahúsum var mikið líf í allan dag. Fjölmargar sýningar eru í húsinu og þar gátu börn einnig búið til eldfjöll og notið aðstoðar foreldra við þá iðju.

Suður í Garði er einnig stórt „byggðasafn“ í einkaeigu, Bragginn hjá Ásgeiri Hjálmarssyni. Þangað komu margir að skoða og þar vakti Chevrolet vörubifreið frá árinu 1946 mikla athygli. Hún hefur nýlega verið gerð upp frá grunni og er komin með skoðun og bílnúmerið G-1426, sem áður var á samskonar bifreið frá Nýjalandi í Garði.

Síðdegis í dag voru svo ræstar tvær vélar á Byggðasafninu í Garði. Vélarnar eru úr safnkosti Guðna Ingimundarsonar en þær vélar eiga það nær allar sameiginlegt að rjúka í gang við fyrsta start. Þær verða aftur settar í gang síðdegis á morgun, sunnudag.

Það er ástæða til að hvetja fólk til að kíkja á söfnin á Suðurnesjum á morgun, sunnudag, og njóta þess sem þar er í boði.

Á Vatnsleysuströnd eru ýmsar áhugaverðar minjar. Vélbáturinn Huginn og tveir minni bárar sem varveittir eru í Halakoti, samkomuhúsið Kirkjuhvoll, skólaminjar í Norðurkoti á Kálfatjörn, svo eitthvað sé nefnt.

Í Grindavík er sýning um áhrif hamfaranna og við Reykjanesvita er áhugaverð sýning.

Í Reykjanesbæ verða bakaðar lummur á morgun við Skessuhelli, áhugaverðar sýningar eru á bókasafninu, listasmiðja og sýningin Varnarliðið kaldastríðsútvörður.

Á Þekkingarsetri Suðurnesja í Sandgerði er Fróðleiksfúsi og áhugaverðar sýningar.

Unuhús er opið í Garði og þar er boðið upp á kaffi og vöfflur. Þá er Duus handverk opið á Hafnargötu 62 í Keflavík og hægt að kynna sér þurrabúðarlífið í Stekkjarkoti.

Alla dagskrá Safnahelgar á Suðurnesjum má sjá á safnahelgi.is

Safnahelgi 2025
Safnahelgi 2025