Bragi Guðmundsson - Báruklöpp
Bragi Guðmundsson - Báruklöpp

Fréttir

Forsætisráðherra bankaði upp á hjá íbúum Sandgerðis
Laugardagur 18. október 2025 kl. 13:19

Forsætisráðherra bankaði upp á hjá íbúum Sandgerðis

Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingar, gekk í hús í Sandgerði í vikunni og ræddi við íbúa um hvað Samfylkingin getur gert til að létta daglega lífið. Með Kristrúnu í för voru sjálfboðaliðar og sveitarstjórnarfólk Samfylkingar í Suðurnesjabæ, sem og þingmenn Suðurkjördæmis, Víðir Reynisson og Ása Berglind Hjálmarsdóttir. Í kjölfarið var haldinn opinn fundur í Sjávarsetrinu í Sandgerði, þar sem forsætisráðherra og þingmenn áttu líflegt samtal við gesti. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Samfylkingin er komin í stjórn landsmálanna og leiðir nú breytingar í ríkisstjórn. En verkefnið er bara rétt að byrja. Við viljum vera í stöðugu samtali við fólkið í landinu. Nú ræsum við málefnastarfið fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor og setjum daglega lífið í forgang. Það var frábært að byrja í Sandgerði í gær. Banka á dyr og ræða við fólk um það sem Samfylkingin getur gert til að létta því tilveruna. Við höldum svo áfram samtalinu um allt land á næstu misserum. Á morgun verðum við í Þorlákshöfn og á þriðjudag heimsækjum við Hafnarfjörð. Ég hvet fólk til að taka þátt og hlakka til að sjá sem flesta á opnum fundum í þeirra heimabæ,“ segir Kristrún.

Bílakjarninn frá sept. 25
Bílakjarninn frá sept. 25

Stefnan mótuð þétt með þjóðinni

Viðburðirnir eru hluti af málefnastarfi Samfylkingarinnar sem nú er farið af stað af fullum krafti, eins og áður segir. Fyrsta forgangsmálið að sinni er Daglega lífið, þar sem Samfylkingin mun fara um land allt, banka upp á hjá þjóðinni og eiga samtal um hvað flokkurinn getur gert til að létta líf fólksins í landinu.

Næst verður Samfylkingin í Þorlákshöfn í Ölfusi laugardaginn 18. október og í Hafnarfirði þriðjudaginn 21. október. Fleiri viðburðir verða auglýstir síðar. Hægt er að kynna sér málefnastarf Samfylkingar og taka þátt í samtalinu um daglega lífið hér.

Forgangsmál í málefnastarfi Samfylkingarinnar til vorsins 2027 eru alls þrjú og verða tekin fyrir eitt í einu á næstu misserum. Stýrihópur hefur verið skipaður sem heldur utan um og leiðir vinnuna. Afrakstur þeirrar vinnu verður svo kynntur í formi útspila með skýrum stefnumálum, það fyrsta vorið 2026.

Forgangsmálin þrjú eru eftirfarandi:

1. Daglegt líf: Hvernig getur Samfylkingin aðstoðað? (frá hausti 2025 til vors 2026)

2. Einföldun regluverks: Hver eru næstu skref? (frá vori 2026 til haust 2026)

3. Öryggi borgaranna: Íslenska leiðin (frá hausti 2026 til vors 2027)