Bragi Guðmundsson - Báruklöpp
Bragi Guðmundsson - Báruklöpp

Íþróttir

SportHiit hópur úr Reykjanesbæ tók þátt í Spartan
Hópurinn: (efri röð vinstri): Árni Freyr, Fannar, Óskar Marinó, Andrés, Reynir Þór, Heimir Daði, María, Herdís Ósk, Ásdís Inga, Diljá, Hafdís Ýr, Sara og Lilly Guðlaug.
Laugardagur 18. október 2025 kl. 13:06

SportHiit hópur úr Reykjanesbæ tók þátt í Spartan

Þrettán manna hópur sem æfir saman í SportHiit, Sporthúsinu í Reykjanesbæ, tók þátt í Spartan-keppni sem haldin var í Hvar í Króatíu dagana 11. og 12. október. Spartan er krefjandi þol- og hindrunarkeppni þar sem þátttakendur hlaupa 5, 10 eða 21 kílómetra og takast á við fjölbreyttar áskoranir á leiðinni – meðal annars að klífa veggi, burðast með þunga hluti og synda í sjó.

Sara Stefánsdóttir náði einstöku afreki þegar hún lauk öllum þremur vegalengdunum og hlaut þar með svokallaða Trifecta, sem telst mikið afrek – ekki síst þar sem brautin í Hvar er þekkt fyrir að vera bæði löng og krefjandi.

Bílakjarninn frá sept. 25
Bílakjarninn frá sept. 25

Veður að keppnisdögunum var bjart og hlýtt, 22 stiga hiti og sól, sem var nokkuð ólíkt þeim aðstæðum sem keppendurnir eru vanir heima í íslenskum æfingasal. Hækkunin á brautinni var einnig talsverð og má líkja henni við göngu á Móskarðshnúka.

Hópurinn hafði æft saman undir handleiðslu þjálfaranna Árna Freys og Hafdísar Ýrar, þar sem lögð er áhersla á úthald, þol og styrk. Þjálfararnir hvöttu hópinn áfram á keppnisdagana og stuðluðu að frábærum árangri allra. Samstaðan var sterk og hvöttu þátttakendur hvert annað áfram uns allir náðu sínum markmiðum.

Eftir vel heppnaða ferð er hópurinn þegar farinn að skoða næstu Spartan-keppni. Áfangastaðirnir eru fjölmargir og áskoranirnar ólíkar – en spennandi fyrir þá sem sækjast eftir líkamlegu og andlegu ævintýri í útlöndum.

Sara Stefánsdóttir með þrjá verðlaunapeninga sem saman mynda Trifecta.

Hópurinn sem skráði sig í 21 km – en endaði með að hlaupa 25!

Efri röð frá vinstri: Óskar Marinó, Andrés, Fannar, Árni Freyr, Diljá, Reynir Þór.
Neðri röð: Sara og Hafdís Ýr.  

Hópurinn sem tók þátt í 10 km Spartan hlaupinu, sem reyndist þó vera 15 km. Frá vinstri: María, Lilly Guðlaug, Sara, Herdís Ósk, Ásdís Inga og Heimir Daði.