ÍSL#NSK ÞJÓÐLÖG Í GÚMMÍSTÍGVÉLUM
Bíósalurinn í Duus húsum fer að nötra sunnudaginn 19. október kl. 16:00. Þar verður ekki kvikmynd á ferðinni heldur leiksýning, söngleikhús sem Hanna Dóra Sturludóttir leiðir með tali og tónum.
Þannig er að Atli Ingólfsson hefur um ævina notað íslensk þjóðlög í ýmsa rétti, blásið í þau nýju lífi, endursagt eða misskilið á ýmsan hátt. Nú hefur hann tekið tólf útsetningar sínar og raðað saman í sérstakt samfellt verk, auk þess sem í miðjunni trónir hrollvekjandi draugasaga. Auk Hönnu Dóru flytja verkin sönghópurinn Kammeróperan og hljóðfæratríó, þær Bryndís Halla Gylfadóttir, selló, Gerður Gunnarsdóttir, fiðla, og Þuríður Jónsdóttir, flauta, en þær deila vangaveltum, hálfkæringi eða skætingi með Hönnu Dóru. Verkið er bæði broslegt og íhugult, ögrandi og huggandi.
Sýningin heitir ÍSL#NSK ÞJÓÐLÖG og er hluti af Óperudögum. Miða má nálgast á tix.is eða við innganginn. Önnur sýning verður sunnudaginn 26. október kl. 16:00. https://www.operudagar.is/is/2025/islenskthjodlog/