Göngustígur milli Garðs og Reykjanesbæjar í undirbúningi
Bæjarráð Suðurnesjabæjar hefur samþykkt að halda áfram undirbúningi framkvæmda við göngu- og hjólastíg milli Garðs og Reykjanesbæjar. Verkefnið verður unnið í samstarfi við Vegagerðina og Reykjanesbæ, og er markmiðið að bæta tengingu sveitarfélaganna fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.
Tillagan var samþykkt með atkvæðum fulltrúa O- og S-lista, en fulltrúi B-lista greiddi atkvæði á móti.
Í bókun fulltrúa B-lista kom fram að hann teldi forgangsröðun verkefna ekki rétta. Að hans mati ætti að setja í forgang að tengja sveitarfélagið við stærsta vinnustaðinn á svæðinu – Flugstöð Leifs Eiríkssonar – með hjóla- og göngustíg upp Sandgerðisveg að Rósaselstorgi.
Samþykktin markar áframhald í undirbúningi að mikilvægu samgöngu- og öryggisverkefni, en nánari tímasetningar framkvæmda liggja ekki fyrir að svo stöddu.