SSS uppbyggingarsjóður
SSS uppbyggingarsjóður

Fréttir

Kallað eftir sjónarmiðum Grindvíkinga um endurreisn og framtíðarsýn bæjarins
Kristrún á fundinum í Grindavík í síðustu viku. VF/sdd
Mánudagur 13. október 2025 kl. 08:48

Kallað eftir sjónarmiðum Grindvíkinga um endurreisn og framtíðarsýn bæjarins

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra flutti ávarp á opnum fundi í Gjánni í Grindavík í liðinni viku þar sem hún tók þátt í umræðum með íbúum um framtíð bæjarins. Á fundinum var kynnt að stjórnvöld hefðu sett af stað opið samráðsferli um næstu skref í endurreisn Grindavíkur.

Undanfarnar vikur hefur svonefnd Grindavíkurnefnd unnið að gerð umræðuskjals sem fjallar um lykilþætti í endurreisnarferlinu, þar á meðal sveitarstjórnarkosningar, stjórnskipulag og samráð milli bæjarins og ríkisins. Skjalið byggir á samtölum milli nefndarinnar, Grindavíkurbæjar og forsætisráðuneytisins og hefur nú verið birt í Samráðsgátt stjórnvalda.

Bílakjarninn frá sept. 25
Bílakjarninn frá sept. 25

Markmiðið er að kalla eftir sjónarmiðum Grindvíkinga og annarra hagaðila um hvernig best sé að standa að endurreisn og framtíðarsýn bæjarins eftir það fordæmalausa áfall sem varð í kjölfar eldgosa og rýmingar.

Kosningaréttur Grindvíkinga meðal lykilspurninga

Eitt helsta viðfangsefni næstu mánaða verður undirbúningur sveitarstjórnarkosninganna vorið 2026. Lagt er upp með að tryggja að niðurstöður þeirra endurspegli raunverulegan vilja Grindvíkinga og tryggi bæjarfélaginu skýrt lýðræðislegt umboð.
Í umræðuskjalinu eru dregnar upp þrjár mögulegar leiðir um kosningarétt:

  • Að þeir sem voru með lögheimili í Grindavík við rýmingu bæjarins geti valið hvort þeir nýti atkvæðisrétt sinn í Grindavík eða í sveitarfélagi þar sem þeir eru nú skráðir.

  • Að kosningaréttur miðist við þá sem eru skráðir með lögheimili í Grindavík við útgáfu kjörskrár.

  • Að kjörskrá miðist eingöngu við raunverulega búsetu í Grindavík.

Áhersla á samráð og traust

Jafnframt er kallað eftir skoðunum á því hvernig samstarf ríkis og sveitarfélagsins geti best stutt við endurreisnina og tryggt að raddir Grindvíkinga, óháð núverandi búsetu, hafi raunverulegt vægi í ákvarðanatöku.

Þá er óskað eftir viðhorfum til þess hvort og hvernig alþjóðlegir aðilar, svo sem Alþjóðabankinn, geti komið að ferlinu með ráðgjöf eða stuðningi við endurreisnina.

Fjórar lykilspurningar til íbúa

Í samráðsferlinu eru settar fram fjórar spurningar sem Grindvíkingum og öðrum er boðið að svara í Samráðsgátt stjórnvalda:

  1. Hvernig má tryggja að rödd Grindvíkinga heyrist og hafi raunverulegt vægi í ákvörðunum um uppbyggingu bæjarins?

  2. Hvernig er réttast að útfæra kosningarétt Grindvíkinga, eftir lögheimili, raunverulegri búsetu eða vali þeirra sem áttu lögheimili 10. nóvember 2023?

  3. Með hvaða hætti má koma á skilvirkri samvinnu milli ríkis og sveitarfélags á næsta kjörtímabili til að stuðla að farsælli endurreisn og trausti samfélagsins?

  4. Hver er afstaða þín til þess að fá Alþjóðabankann eða aðra alþjóðlega aðila að borðinu með ráðgjöf um endurreisn Grindavíkur?

Umsagnir um umræðuskjalið má senda í Samráðsgátt stjórnvalda til og með 31. október 2025.

Safnahelgi 2025
Safnahelgi 2025