Elsa Pálsdóttir heimsmeistari í fimmta sinn
Vann gull í þremur greinum og samanlögðu á HM í Suður-Afríku
Suðurnesjakonan Elsa Pálsdóttir hefur enn á ný unnið til heimsmeistaratitils í klassískum kraftlyftingum. Hún sigraði í master 3 flokki (60–69 ára) í 76 kg þyngdarflokki á heimsmeistaramótinu sem fer nú fram í Suður-Afríku, og ber titilinn heimsmeistari 2025 – fimmta árið í röð.
„Stolt ber ég þennan titil fimmta árið í röð,“ skrifaði Elsa á samfélagsmiðla eftir sigurinn.
Árangurinn var glæsilegur eins og svo oft áður. Elsa vann gull í hnébeygju, silfur í bekkpressu, gull í réttstöðu og gull í samanlögðu. Hún segir þó að undirbúningurinn hafi ekki gengið eins og best verður á kosið vegna meiðsla, en sé engu að síður mjög sátt við niðurstöðuna.
„Engin met voru slegin að þessu sinni en þrátt fyrir það er ég mjög ánægð með árangurinn,“ sagði hún.
Verkefnið í Suður-Afríku er þó ekki alveg búið hjá henni. Elsa mun einnig keppa í búnaðarflokknum síðar í vikunni og ætlar þar að verja heimsmeistaratitil sinn.
„Nú er bara að hvíla skrokkinn og gera hann tilbúinn fyrir næstu átök sem verða föstudaginn 17. október,“ skrifar hún að lokum.