128 íbúðir í fimm fjölbýlishúsum á gamla BYKO-reitnum
Nýtt deiliskipulag við Víkurbraut 10 og 14 í Reykjanesbæ.
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt að senda tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir Víkurbraut 10 og 14 til Skipulagsstofnunar til endanlegrar afgreiðslu. Tillagan var auglýst og engar athugasemdir bárust á auglýsingatíma.
JeES arkitektar unnu tillöguna fyrir hönd Smáragarðs ehf. og felur hún í sér uppbyggingu nýrrar húsaþyrpingar sem samanstendur af fimm fjölbýlishúsum, þremur til sex hæða, með bílageymslu undir sameiginlegum inngarði. Heildarfjöldi íbúða á svæðinu verður um 128 íbúðir af fjölbreyttum stærðum, frá 60 til 120 fermetrum, sem ætlaðar eru bæði einstaklingum og fjölskyldum.
Meginhluti bílastæða verður í bílageymslu neðanjarðar, en gestastæði verða ofanjarðar. Gert er ráð fyrir 1,5 bílastæði á hverja íbúð, í samræmi við viðmið Reykjanesbæjar.