Milliliðalaust byrjað aftur í Grindavík
„Ég var beðinn um að byrja með „Milliliðalaust“ í Kvikunni en þetta var nánast vikulegur viðburður á meðan við Krilli bróðir áttum og rákum Bryggjuna. Þá kom einhver og talaði um ákveðið málefni og svaraði spurningum milliliðalaust og undantekningarlaust sköpuðust góðar umræður. Rithöfundurinn og fyrrverandi þingmaðurinn, Ásmundur Friðriksson, reið á vaðið í síðustu viku, Fannar bæjarstjóri mætti í morgun og í næstu viku kemur forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, Ásrún Kristinsdóttir. Ég gef ekki upp núna hverjir munu svo mæta en það eru spennandi nöfn,“ segir „Melurinn“ eins og hann kallar sig oft, Aðalgeir Jóhannsson, oft kenndur við Eyri í Grindavík.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, var frummælandi í morgun og var Alli ánægður með bæjarstjórann.
„Það var marg fróðlegt sem kom fram í máli Fannars og góðar umræður sem sköpuðust. Það er auðvitað galið að Grindavíkurbær skuli ekki fá fasteignagjöld af fasteignum í Grindavík, maður spyr sig hvaða máli skiptir hvaðan fjármunirnir koma því auðvitað blasir við að ríkið muni þurfa að styðja við bakið á uppbyggingu Grindavíkurbæjar. Af hverju má ekki stuðningurinn byrja með því að allir fasteignaeigendur í Grindavík borgi eðlilegan fasteignaskatt?
Sömuleiðis finnst mér mjög skrýtið að Grindavíkurbær hafi ekki fengið sömu styrki og önnur bæjarfélög hafa fengið vegna fólksfækkunar, það er eins og verið sé að refsa bænum fyrir að hafa staðið vel fjárhagslega.
Ég hef fulla trú á að nú séu vindar búnir að snúast og séu í bakið á okkur Grindvíkingum, já eða í seglin okkar og ég held að mjög bjartir tímar séu framundan í Grindavík. Fyrir þessar hremmingar höfðum við gullið tækifæri á að vera flottasti ferðamannabær Íslands og þótt víðar væri leitað en túristarnir sem komu í Bláa lónið vissu ekki af Grindavík. Í dag vita allir af okkur og hér mun allt leika í blóma áður en langt um líður, það er ég sannfærður um,“ sagði Alli.

