SSS uppbyggingarsjóður
SSS uppbyggingarsjóður

Fréttir

Slökkvistarfi lokið á Ásbrú
Miðvikudagur 15. október 2025 kl. 13:27

Slökkvistarfi lokið á Ásbrú

Slökkvistarfi lauk á ellefta tímanum í morgun við iðnaðarhúsnæði á Ásbrú í Reykjanesbæ þar sem eldur kom upp í nótt. Allt tiltækt lið Brunavarna Suðurnesja var kallað út á fimmta tímanum í nótt þegar tilkynning barst um mikinn eld í byggingu við Klettatröð.

Húsið, sem er um 950 fermetrar að stærð, skemmdist mikið í brunanum og eldurinn hafði náð að breiðast milli þilja og í þak áður en slökkviliðsmenn náðu tökum á honum. Viðbygging aftan við húsið varð alelda og talið er að þar kunni að hafa verið upptök eldsins, en rannsókn lögreglu á Suðurnesjum mun leiða það í ljós.

Bílakjarninn frá sept. 25
Bílakjarninn frá sept. 25

Slökkvistarfið stóð yfir langt fram á morgun og unnið var að því að tryggja að eldurinn tæki sig ekki upp á ný. Að loknu slökkvistarfi hófst hreinsun á vettvangi og verður áfram fylgst með húsinu til að fyrirbyggja að eldur brjótist ekki út aftur.

Enginn var í hættu og ekki er vitað til þess að neinn hafi verið í húsinu þegar eldurinn kviknaði. Lögreglan á Suðurnesjum fer nú með rannsókn málsins og unnið að því að meta umfang tjónsins.