Hættumat óbreytt
Skammvinn smáskjálftahrina mældist austan við Sýlingarfell á laugardagskvöld og stóð yfir í um klukkustund áður en hún fjaraði út. Ekki mældust markverðar breytingar á GPS-mælum, ljósleiðaragögnum eða þrýstingi í borholum í Svartsengi samhliða skjálftavirkninni. Þetta kemur fram í samantekt Veðurstofu Íslands.
Sambærilegar smáskjálftahrinur hafa áður mælst nokkrum vikum fyrir eldgos á Sundhnúksgígaröðinni, til dæmis fyrir eldgosin í maí og nóvember 2024. Aukin skjálftavirkni eins og þessi smáhrina er vísbending um að þrýstingur á kvikusöfnunarsvæðinu sé að aukast, þó er áfram óvissa um nákvæma tímasetningu á næsta atburð.
Aflögunarmælingar
Aflögunarmælingar síðustu vikna sýna að landris og kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi. Sé horft á hraða landrissins yfir nokkurra vikna tímabil má sjá vísbendingar um að lítillega hafi dregið úr hraða þess. Frá síðasta eldgosi, sem hófst 16. júlí, hafa á milli 12 og 13 milljónir rúmmetra af kviku bæst aftur við kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi.
Út frá fyrri atburðum á Sundhnúksgígaröðinni aukast líkurnar á nýju kvikuhlaupi eða eldgosi þegar jafn mikið af kviku hefur safnast fyrir undir Svartsengi og hljóp út í síðasta atburði. Magnið sem hljóp úr kvikusöfnunarsvæðinu í því gosi er áætlað um 11-13 milljónir rúmmetra. Neðri mörkum þess rúmmáls var náð um síðustu mánaðamót.
Greining fyrri atburða hefur gert Veðurstofunni kleift að áætla á hvað bili rúmmál kvikusöfnunar liggur til að koma af stað næsta kvikuhlaupi eða eldgosi. Efri mörk þess bils eru áætluð um 23 milljónir rúmmetra og samkvæmt líkanreikningum verður því rúmmáli náð í lok desember, að því gefnu að hraði kvikusöfnunar haldist óbreyttur. Óvissan í tímasetningu á næsta atburði er því enn talsverð.
Jarðskjálftavirkni og landsig nærri Krýsuvík
Skjálftavirkni nærri Krýsuvík heldur áfram og mælist þar fjöldi smáskjálfta á hverjum degi. Landsig heldur einnig áfram á svæðinu sem mælst hefur frá því í sumar og nemur nú um 50 mm á GPS-stöðinni í Móhálsadal síðan í byrjun júní.
Færslur á GNSS-stöðinni MOHA í Móhálsadal undanfarið ár í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landsig í millimetrum, og mælingin í gær (13. október) er sýnd með grænum punkti.
Hættumatskort
Hættumatskort hefur verið uppfært og helst óbreytt til 28. október nema virkni breytist.
Frekari upplýsingar og útskýringar á hættumatskortinu eru aðgengilegar á vef Veðurstofunnar um hættumatskort.
Veðurstofan er með sólarhringsvöktun á allri náttúruvá á Íslandi.
- Rauntímaeftirlit
- Viðvaranir gefnar út ef ástæða er til
- Upplýsingar um virkni birtar í fréttum á vedur.is
- Upplýsingum er miðlað á daglegum stöðufundum til hag- og viðbragðsaðila.
- Vikulegar skýrslur: staða eldfjalla tekin saman og send til hagaðila.
Ítarlegar upplýsingar um eldstöðvarkerfi má finna í Eldfjallavefsjánni: