Vill tafarlausar úrbætur í vetrarþjónustu á gervigrasvelli
Á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar 7. október var rædd fundargerð íþrótta- og tómstundaráðs frá 23. september. Þar vakti Alexander Ragnarsson (D) athygli á því að gervigrasvöllurinn í Reykjanesbæ hafi ekki fengið vetrarþjónustu frá því í september 2024, þegar verktaki sem sá um snjóhreinsun sagði upp samningi sínum við bæinn.
Í bókun sem Alexander lagði fram fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins kemur fram að í kjölfar þess hafi iðkendur, foreldrar og stjórnendur tekið að sér snjóhreinsun sjálf með tækjum sem geti, að mati sérfræðinga, verið skaðleg fyrir gervigrasið.
Flokkurinn leggur áherslu á að Reykjanesbær bregðist strax við og kanni hvort hægt sé að semja við verktaka án tafar eða fjárfesta í eigin búnaði til snjómoksturs.
„Ekki er hægt að bíða eftir fjárhagsáætlun og nýju ári til umbóta,“ segir í bókuninni. „Ekki er hægt að treysta á að það verði óafturkræf skemmd á grasinu með notkun á ófullnægjandi búnaði við snjóhreinsun.“
Undir bókunina skrifuðu Alexander Ragnarsson, Margrét Sanders og Guðbergur Reynisson fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins.