Bæjarstjórn vill halda hringtorgi við Þjóðbraut vegna öryggis og aukinnar umferðar
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum 7. október að skipulags- og matslýsing á breytingu á aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2020–2035 verði auglýst. Samhliða samþykktinni lagði bæjarstjórn áherslu á að áfram verði gert ráð fyrir hringtorgi eða mislægum gatnamótum við Þjóðbraut og Reykjanesbraut, í stað þess að einungis verði um hægri beygjur að ræða eins og núverandi tillaga gerir ráð fyrir.
Í bókun bæjarstjórnar segir að þó margt hafi batnað í skipulagsvinnunni frá fyrstu drögum sé enn stórt atriði sem ekki gangi upp – fyrirhuguð umferðarskipan við Þjóðbraut.
Bent er á að svæðið sé nú þegar að taka miklum breytingum þar sem rúmlega 1.000 nýjar íbúðir séu í byggingu eða á teikniborðinu, þar af um 900 í Hlíðarhverfi 2 og 3 og fjöldi íbúða á Akademíureitnum. Þar verði einnig reistur verslunar- og þjónustukjarni og miðstöð almenningssamgangna.
Þá er minnt á að í næsta nágrenni sé mikil uppbygging íþróttamannvirkja við Reykjaneshöll, og að umrædd gatnamót séu mikið notuð af íbúum, nemendum Fjölbrautaskóla Suðurnesja og viðbragðsaðilum sem þurfi greiðan aðgang að svæðinu.
„Við teljum það mikilvægt öryggismál að halda Þjóðbraut óbreyttri með hringtorgi,“ segir í bókuninni. „Við sjáum það hreinlega ekki ganga upp að breyta gatnamótunum eingöngu í beygjuakreinar til hægri.“
Bæjarstjórn vonast til að unnið verði áfram samkvæmt skipulagslýsingunni, en að tekið verði mið af þessum athugasemdum til að tryggja örugga og framtíðarhæfa lausn fyrir umferð og uppbyggingu í Reykjanesbæ.
Undir bókunina rituðu allir bæjarfulltrúar bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.