Traust til almannavarna brostið og íbúar krefjast samráðs
Málþing Landsbyggðin lifi haldið í Grindavík
Félagsskapurinn Landsbyggðin lifi stóð fyrir málþingi í Gjánni í Grindavík þar sem fjallað var um áhættu og þrautseigju samfélags. Þátttaka var mjög góð en alls mættu 38 manns, sem jafngildir nærri tíu prósentum bæjarbúa miðað við núverandi íbúafjölda.
Á fundinum var rætt opinskátt um stöðu Grindvíkinga eftir áföll síðustu ára og hvernig traust til almannavarna hefur minnkað í kjölfar aðgerða þeirra gagnvart bæjarbúum.
„Það kom skýrt fram að traust til Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra er þverrandi og að nauðsynlegt sé að þessi mikilvæga stofnun sæti eftirliti, líkt og aðrar ríkisstofnanir,“ sagði Hildur Þórðardóttir, formaður Landsbyggðin lifi, í tilkynningu eftir fundinn.
Í lok málþingsins samþykktu viðstaddir einróma að senda tvær ályktanir til stjórnvalda, alþingismanna og fjölmiðla.
I. Ályktun frá málþingi um áhættu og þrautseigju samfélags
Fram kom á málþinginu að traust til Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra væri brostið og leggjum við því til að stofnuð verði óháð eftirlitsnefnd með störfum Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra eða rannsóknarnefnd um störf deildarinnar í Grindavík á síðustu árum.
II. Ályktun frá málþingi um áhættu og þrautseigju samfélags
Íbúar Grindavíkur fara fram á við stjórnvöld að ákvarðanir hvað varðar uppbyggingu Grindavíkurbæjar verði teknar með þeim, en ekki án þeirra.
Fyrir hönd málþingsins undirrituðu:
Hildur Þórðardóttir, formaður Landsbyggðin lifi
Stefanía Vigdís Gísladóttir, varaformaður
Vigfús Ingvar Ingvarsson, ritari
Guðrún Torfhildur Gísladóttir, gjaldkeri