Lítil fjölgun á Suðurnesjum á árinu
Íbúum á Suðurnesjum hefur lítið fjölgað það sem af er ári, samkvæmt nýjustu tölum frá Þjóðskrá Íslands. Þann 1. október síðastliðinn voru íbúar svæðisins samtals 31.777, sem er einungis 45 manns meira en 1. desember 2024 eða aukning um 0,1%.
Reykjanesbær er langfjölmennasta sveitarfélagið á Suðurnesjum með 24.589 íbúa, og hefur bæjarbúum þar fjölgað um 276 manns, sem jafngildir 1,1% fjölgun frá síðustu áramótum.
Sveitarfélagið Vogar sýnir hlutfallslega mesta vöxtinn. Íbúar þar eru nú 1.942, sem er aukning um 149 manns eða 8,3%.
Í Suðurnesjabæ búa nú 4.368 manns, og hefur íbúum fjölgað um 150, sem er 3,6% fjölgun.
Þar sem mest ber á breytingum er í Grindavíkurbæ, þar sem íbúum hefur fækkað stórlega í kjölfar náttúruhamfaranna sem þar hafa átt sér stað. Þann 1. október voru 878 manns skráðir til heimilis í Grindavík, sem er 530 færri en 1. desember í fyrra eða 37,6% fækkun. Þegar mest var, þann 1. desember 2023, voru 3.720 Grindvíkingar skráðir í bænum.