Kalla eftir tafarlausum úrbótum á göngu- og hjólastígum við Fitjabraut
Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Umbótar í Reykjanesbæ, lagði fram bókun á fundi bæjarstjórnar 7. október þar sem flokkurinn kallar eftir tafarlausum úrbótum á göngu- og hjólatengingum við verslunar- og þjónustusvæðið á Fitjum.
Í bókuninni segir að tengingarnar séu nauðsynlegar fyrir öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda, bæði íbúa Ásahverfis og þeirra sem sækja verslanir á Fitjum. Umbót hafi ítrekað bent á þörfina fyrir úrbætur og kallað eftir umferðarljósum og öruggum tengingum yfir Fitjabraut, en málið hafi dregist á langinn.
„Nauðsynlegt er að tryggja fjármagn strax svo unnt verði að ljúka stígnum til norðurs og hanna lausnir til suðurs í átt að Ásahverfi án frekari tafa,“ segir í bókuninni.
Umbót bendir á að meirihlutinn hafi nýlega tekið 800 milljóna króna lán og því ætti ekkert að standa í vegi fyrir að hluti þess verði nýttur í öruggar og vistvænar samgöngur. Flokkurinn leggur áherslu á að málið verði afgreitt hratt og framkvæmdir hefjist sem fyrst, þar sem íbúar hafi beðið nógu lengi eftir bættri aðstöðu.