Pamela vann gull og Arnar fetar í fótspor afa síns
Tvö ungmenni frá Júdófélagi Reykjaensbæjar (JRB) unnu til gullverðlauna á alþjóðlegu móti sem haldið var í Reykjanesbæ nýlega.
Mótið var mjög sterkt og mættu 6 þjóðir til að keppa en auk Íslands voru það Grikkland, England, Skotland, Króatía og Holland, alls 150 keppendur. Til að bera saman við Reykjavík International Games (RIG), þá er þetta nánast þrefaldur keppendafjöldi, segir í frétt frá JRB.
Júdófólk JRB stóð sig virkilega vel og komust margir á verðlaunapall og 3 gullverðlaun unnust.
Pamela Rós Ómarsdóttir vann til gullverðlauna í sínum flokki undir 15 ára og Arnar Einarsson vann sinn flokk í undir 15 ára og gerði svo gott betur og vann líka gullverðlaun í flokki undir 18 ára. Arnar er ekki nema 13 ára gamall og kemur frá júdófjölskyldu, en afi hans Magnús Hersir Hauksson, keppti fyrir Keflavík á sínum tíma og var sigursæll júdókappi.
Júdóið í Reykjanesbæ hefur verið í mikilli uppsveiflu undanfarin tvö ár og sækir enn fram.
Á sunnudeginum voru æfingabúðir þar sem yfirþjálfari JRB Dr. George Bountakis stýrði, fyrsta æfingin byrjaði kl.10:00 og síðasta æfingin endaði kl.18:00.
Stjórn JFR vill þakka öllum sjálfboðaliðum fyrir óeigingjörn störf og gríðarlega vinnu sem stóð að baki, þessi hjálp var ómetanleg. Einnig viljum við þakka fyrirtækjunum sem styrktu þetta mót en það voru:
Myllan
Nesraf
Jysk
Toyota
Höldur
Bílasprautun Magga Jóns
Kaffitár
Skipting
Skólamatur
Viking World
Sigurjónsbakarí
Bílageirinn










