Léttur og leikandi Kardemommubær hjá Leikfélagi Keflavíkur
Það var tær gleði í troðfullu Frumleikhúsinu þegar Leikfélag Keflavíkur frumsýndi Kardemommubæinn á sunnudaginn. Uppfærslan er vönduð og um leið sprenghlægileg; hér ríkir rétt jafnvægi milli hlýju, húmors og drifkrafts. Leikstjórn Gunnar Gunnsteinssonar heldur sviðinu lifandi frá fyrstu mínútu og tryggir að allir leikarar fái að njóta sín.
Íslendingar þekkja flestir Kardemommubæinn. Hann hefur verið settur reglulega á svið í Þjóðleikhúsinu og tónlistin hefur lifað með þjóðinni í áratugi. Verkið eftir Þorbjörn Egner segir frá litlum bæ þar sem einfaldar reglur um kurteisi, virðingu og samhjálp halda samfélaginu gangandi. Ræningjarnir þrír reyna sitt með lögleysum og brellum en læra smám saman að tilheyra hópnum og að umburðarlyndi og ábyrgð eru forsenda þess að bærinn dafni. Þessi kjarni, að við lifum best þegar við sýnum hvort öðru tillitssemi, hjálpumst að og látum reglur þjóna manneskjunni en ekki öfugt, á jafn vel við í dag og þegar sagan var skrifuð.
Ræningjarnir Kasper, Jesper og Jónatan stela ítrekað senunni með ómótstæðilegri samvinnu, nákvæmri tímasetningu og húmor sem fær salinn til að skellihlæja. Þeir eru elskuleg „illmenni“ og samskipti þeirra við aðra íbúa bæjarins eru meðal hápunkta sýningarinnar.
Soffía frænka, þetta óviðjafnanlega skass, er líka ein af perlum sýningarinnar: skörp og ráðrík á yfirborðinu en með blítt hjarta sem skín þegar á reynir. Innkomur hennar kveikja hlátursköst en persónan fær líka mannlega dýpt sem tengir beint við boðskap verksins, að styrkur samfélagsins í Karmemommubæ birtist í því hvernig við pössum hvert annað, líka þá sem okkur finnst stundum „til vandræða“.
Tónlistin er vel unnin og þjónar sögunni af næmni; samsöngur er traustur og hljóðheimurinn skýr. Leikmynd og búningar mynda litríka og samræmda heild sem fangar bæði ævintýraandann og nostalgíuna, og lýsingin styður leikinn á snyrtilegan hátt. Sviðsskipti eru lipur og áferð sýningarinnar heilsteypt. Þau sem unnu sviðsmyndina hafa svo sannarlega gert þetta áður.
Leikararnir fá heildstætt hrós. Hér ríkir fagmennska og leikgleði. Hópurinn er allt frá nýliðum til mikilla reynslubolta í Frumleikhúsinu. Það sést að mikill metnaður liggur að baki, allt frá kóreógrafíu og látbragði yfir í stílhreina tæknivinnu. Niðurstaðan er fjölskyldusýning sem hittir beint í mark. Karmemommubærinn getur því verið fyrsta leikhúsferð margra barna og ljúf nostalgíustund fyrir þau eldri. Það er ástæða til að hvetja til ferðar í frumleikhúsið en Kardemommubærinn verður sýndur að deginum um helgar, þar sem þetta er fjölskyldusýning sem gerir ráð fyrir því að yngstu áhorfendurnir séu jafnvel farnir í bólið snemma.
Takk fyrir góða skemmtun.
Hilmar Bragi Bárðarson








