Bragi Guðmundsson - Báruklöpp
Bragi Guðmundsson - Báruklöpp

Aðsent

Þegar raunveruleikinn nær meirihlutanum – hundruð milljóna í viðauka í Suðurnesjabæ
Mánudagur 27. október 2025 kl. 11:06

Þegar raunveruleikinn nær meirihlutanum – hundruð milljóna í viðauka í Suðurnesjabæ

Meirihluti bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar – Sjálfstæðisflokkur, Bæjarlistinn og Samfylkingin – samþykkti í fyrra fjárhagsáætlun sem tók ekki tillit til stóra og fyrirséða kostnaðarliði í félagsþjónustunni.

Minnihlutinn gagnrýndi þetta harðlega við afgreiðslu áætlunarinnar og benti á að útgjöld, sérstaklega vegna barna með fjölþættan vanda, væru mun hærri en gert var ráð fyrir. Þrátt fyrir skýrar ábendingar og ráðleggingar fagaðila á félagsþjónustusviði ákvað meirihlutinn engu að síður að áætla einungis 50 milljónir króna í þennan málaflokk árið 2025.

Nýsprautun vetrardekk
Nýsprautun vetrardekk

Nú, í október 2025, hefur meirihlutinn lagt fram viðauka við fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 upp á 290 milljónir króna vegna sama málaflokks.
Það staðfestir það sem við í minnihlutanum bentum á í desember í fyrra, að fjárhagsáætlun meirihlutans var hvorki raunhæf né ábyrg.

Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2025, þann 11. desember 2024, lagði minnihlutinn fram bókun þar sem sérstaklega var bent á að kostnaður vegna barna með fjölþættan vanda hefði aukist um 254 milljónir milli ára.

Engu að síður var aðeins áætlað 50 milljónir króna til málaflokksins, og jafnframt var gerð athugasemd við skort á samráði í áætlunarferlinu.

Þegar viðaukinn upp á 290 milljónir króna var lagður fram af meirihlutanum í Suðurnesjabæ nú í október, studdum við í Framsókn hann að sjálfsögðu.
Það var fyrirséð að kostnaðurinn myndi lenda á bæjarsjóði, og mikilvægt að börn í erfiðum aðstæðum fái viðunandi þjónustu.

Ríkisstjórnin undirritaði samkomulag við sveitarfélögin í vor um að taka þennan málaflokk yfir frá sveitarfélögunum og þar með einnig þann kostnað sem honum fylgir, frá og með júní 2025. Það var því fyrir séð að kostnaðurinn frá janúar til júní myndi lenda á bæjarsjóði.
Enn hefur þó ekki ein einasta króna borist frá ríkissjóði vegna þessa málaflokks sem snýr að kostnaði frá júní til október Þrátt fyrir fögur fyrirheit ríkisstjórnarinnar. 

Bókun Framsóknar við afgreiðslu málsins

Bókun frá fulltrúa B lista:
Fulltrúi B-lista Framsóknar vill minna á að á 75. fundi bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar, sem haldinn var þann 11. desember 2024, við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2025, lagði minnihlutinn fram eftirfarandi bókun:

Minnihlutinn, bæjarfulltrúar B-lista Framsóknar og bæjarfulltrúi Magnús S. Magnússon, telja að fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 hjá Suðurnesjabæ, sem hér liggur fyrir, gefi ekki raunhæfa mynd af þeim kostnaði sem fyrirséð er að muni lenda á bæjarsjóði. Í því samhengi vilja bæjarfulltrúar B-lista og bæjarfulltrúi Magnús S. Magnússon benda á að kostnaður vegna barna með fjölþættan vanda hefur aukist um 254 milljónir milli ára, en þrátt fyrir þetta hafa S-, D- og O-listar einungis áætlað 50 milljónir króna í þessum lið.

Bæjarfulltrúar B-listans og bæjarfulltrúi Magnús S. Magnússon vilja einnig gera athugasemdir við skort á samráði við gerð fjárhagsáætlunarinnar. Minnihlutinn fékk einungis aðkomu á tveimur vinnufundum, þar sem einungis var farið yfir glærur og engar ákvarðanir teknar, ásamt því að ákvörðun um fundartíma var ekki í samráði við fulltrúa minnihlutans. Þetta fyrirkomulag samráðs var því hvorki fullnægjandi né í samræmi við það sem ætti að viðhafast í lýðræðislegum vinnubrögðum. Af ofangreindum ástæðum geta bæjarfulltrúar B-lista Framsóknar og bæjarfulltrúi Magnús S. Magnússon ekki stutt framlagða fjárhagsáætlun.

Ljóst er nú, vegna þessara viðauka, að meirihluti S-, D- og O-lista hefur verulega vanáætlað útgjöld í þessum málaflokki og þar með vanfjármagnað þjónustu við börn með fjölþættan vanda.

Þetta staðfestir það sem minnihlutinn benti á við afgreiðslu fjárhagsáætlunarinnar að áætlunin var hvorki raunhæf né byggð á fullnægjandi greiningu á raunverulegum rekstrarkostnaði sveitarfélagsins.

Það er áhyggjuefni að þurfa að gera slíka viðauka upp á hundruð milljóna króna innan ársins vegna vanmats í áætlunargerð meirihlutans.

Slíkt vinnulag grefur undan trúverðugleika fjárhagsáætlunarferlisins og sýnir að brýnt er að bæta bæði faglega undirbúning og samráð við gerð næstu fjárhagsáætlunar.

Framsókn mun áfram beita sér fyrir því að fjárhagsáætlanir Suðurnesjabæjar byggist á raungögnum, ábyrgri stjórnsýslu og samráði við alla bæjarfulltrúa – í lok dags snýst þetta um að fjárhagsáætlun sveitarfélagsins gefi raunhæfa mynd af rekstrarkostnaði sveitarfélagsins og tryggi ábyrga stjórnsýslu.

Anton Guðmundsson
Oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ

Dubliner
Dubliner