BVT
BVT

Fréttir

Gáfu björgunarsveitunum á Suðurnesjum tíu milljónir króna
Frá afhendingu gjafarinnar til björgunarsveitanna á Suðurnesjum. VF/Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
sunnudaginn 26. október 2025 kl. 06:13

Gáfu björgunarsveitunum á Suðurnesjum tíu milljónir króna

Björgunarsveitirnar á Suðurnesjum tóku á sunnudag við stórri gjöf úr minningarsjóði Kristjáns Ingibergssonar. Sjóðurinn var í vörslu Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Vísis á Suðurnesjum. Um er að ræða tíu milljónir króna til að efla björgunarsveitirnar á svæðinu.

Skipstjóra- og stýrimannafélagið Vísir á Suðurnesjum hefur sameinast Félagi skipstjórnarmanna. Vísir hefur frá árinu 2017 verið með þjónustusamning við Félag skipstjórnarmanna en hefur nú sameinast félaginu að fullu. Samhliða því verður starfsemi Vísis aflögð á Suðurnesjum.

Bílakjarninn frá sept. 25
Bílakjarninn frá sept. 25

Eitt af síðustu verkum Vísis var að úthluta eign minningarsjóðs Kristjáns Ingibergssonar til björgunarsveitanna á Suðurnesjum. Minningarsjóðurinn var stofnaður árið 1990 eftir sviplegt fráfall Kristjáns, sem lést langt fyrir aldur fram. Kristján hafði verið formaður Vísis, félags skipstjórnarmanna á Suðurnesjum, og lét sig varða slysavarnir og björgunarmál.

Frá stofnun minningarsjóðsins höfðu verið gefnar úr honum níu milljónir króna. Stærsta gjöfin var afhent 1995 til kaupa á búnaði í þá væntanlega björgunarþyrlu. Þá höfðu allar björgunarsveitirnar á Suðurnesjum áður verið styrktar. Minningarsjóðurinn var fjármagnaður með tíund af félagsgjöldum félaga í Vísi og sölu minningarkorta.

Að þessu sinni er minningarsjóðurinn gerður upp og tæmdur með veglegum gjöfum til Björgunarsveitarinnar Sigurvonar í Sandgerði, Skyggnis í Vogum, Þorbjarnar í Grindavík, Suðurnes í Reykjanesbæ og Ægis í Garði. Hver sveit fékk að gjöf tvær milljónir króna til að efla starfið innan sveitanna.

Gjafirnar voru afhentar í húsnæði Björgunarsveitarinnar Suðurnes í Reykjanesbæ, þar sem jafnframt var efnt til kaffisamsætis við þetta tækifæri.

Skipstjóra- og stýrimannafélagið Vísir á Suðurnesjum hefði orðið 80 ára á næsta ári en það hefur nú verið sameinað Félagi skipstjórnarmanna sem var stofnað 2004 og varð til með sameiningu þriggja gamalgróinna félaga, þau voru Skipstjóra- og stýrimannafélagið Aldan sem var eitt elsta stéttarfélag landsins stofnað 1893, Skipstjóra- og stýrimannafélag Norðlendinga stofnað 1918, og Félag íslenskra skipstjórnarmanna sem varð til með sameiningu þriggja eldri félaga árið 2000, en á rætur að rekja aftur til ársins 1919. Á síðari stigum varð Skipstjóra- og stýrimannafélagið Sindri aðili að Félagi Skipstjórnarmanna og einnig Skipstjóra- og stýrimannafélagið Bylgjan á Vestfjörðum. Þegar Farmanna og Fiskimannasamband Íslands FFSÍ var lagt niður í nóvember 2017, gerðu Skipstjóra- og stýrimannafélögin Verðandi í Vestmannaeyjum og Vísir á Suðurnesjum þjónustusamning við Félag Skipstjórnarmanna. Nú er Verðandi í Vestmannaeyjum eina skipstjóra- og stýrimannafélagið sem stendur utan Félags skipstjórnarmanna.

Dubliner
Dubliner