Óvenjuleg úrkomuákefð að teiknast upp á Suðurnesjum
Mikil úrkomuákefð er að teiknast upp á Suðurnesjum í dag og í kvöld, að mestu sem þétt ofandrífa við frostmark. Þetta segir veðurfræðingurinn Einar Sveinbjörnsson á blika.is í færslu á Facebook í dag. Nýjustu spár benda til þess að akstursskilyrði á Reykjanesbraut verði mjög erfið síðdegis og fram á kvöld.
Einar segir nýjasta spákort UWC frá Veðurstofu Íslands, sem gildir kl. 16, gefa til kynna „mjög mikla úrkomuákefð á Suðurnesjum og þar með Reykjanesbrautinni“. Verst sé að úrkoman verði „mjög líklega áfram snjókoma í hita nærri 0°C“, sem þýði að skyggni á brautinni gæti varla orðið meira en 100–200 metrar frá því upp úr hádegi og fram á kvöld – „nær eingöngu vegna þéttrar ofandrífunnar“ þótt vindur verði hægur.
Samkvæmt spáriti Keflavíkurflugvallar sé gert ráð fyrir meira en 50 mm úrkomu frá kl. 12 til miðnættis. Annað spákort sem sýnir uppsöfnun úrkomu kl. 09–24 gefi til kynna 50–75 mm; það telst óvenjuleg ákefð á þessum stað, einkum þar sem um snjókomu er að ræða en ekki rigningu.
Einar bendir jafnframt á að snjódýpt við Veðurstofuna í Reykjavík var mæld 27 sentímetrar kl. 9 í morgun. „Líklega er það mesta mælda snjódýpt í Reykjavík í október,“ skrifar hann og segir veðurmetafræðinga rýna nánar í gögn síðar í dag.
Til fróðleiks má segja frá því að 50 mm útkoma þýðir 25-40 sentimetrar af jafnföllnum snjó.
Færslu Einars má sjá hér að neðan:








