JS Campers
JS Campers

Mannlíf

Melódíur minninganna í Rokksafni Íslands
Jón Kr. Ólafsson í sviðsljósinu í Hljómahöll.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 13. mars 2021 kl. 06:11

Melódíur minninganna í Rokksafni Íslands

Rokksafn Íslands í Hljómahöll hefur opnað nýja sérsýningu sem heitir Melódíur minninganna & Jón Kr. Ólafsson. Formleg opnun var síðasta sunnudag og mættu hátt í tvöhundruð manns.

Við formlega opnun voru flutt tónlistaratriði frá Ingimari Oddssyni. Þá fluttu tölu Tómas Young, framkvæmdastjóri Hljómahallarinnar, Jónatan Garðarsson, handritshöfundur sýningarinnar og Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri sem opnaði sýninguna. Kjartan heimsótti Jón Kr. fyrir nokkrum árum á Bíldudal og upp úr þeirri heimsókn kviknaði þráður milli aðila sem nú er orðinn að glæsilegri sýningu í Hljómahöll.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Sýningin Melódíur minninganna og Jón Kr. Ólafsson fjallar um söngvarann Jón Kr. Ólafsson og tónlistarsafn hans Melódíur minninga sem staðsett er á Bíldudal en undirbúningur sýningarinnar hefur staðið yfir frá því í júní í fyrra. Á sýningunni má finna fjölmarga muni sem Jón hefur safnað í gegnum tíðina frá tónlistarferli sínum og öðrum tónlistarmönnum svo sem Elly Vilhjálms, Ragga Bjarna, Hauki Morthens, Svavari Gestssyni, Stuðmönnum og fleirum.

Jón Kr. þakkaði fyrir sig í stuttri tölu sem hann hélt og sagði jafnframt frá því að allir muni úr safni hans muni renna til Rokksafns Íslands en hluti þeirra er í sýningunni í Hljómahöll.

Gestir sýningarinnar geta upplifað safnið Melódíur minningana sem staðsett er á Bíldudal með aðstoð tækninnar en hluti af sýningunni á Rokksafni Íslands eru gagnvirk sýndarveruleikagleraugu sem gerir gestum kleift að skoða og ganga um tónlistarsafnið sem myndað var sérstaklega fyrir sýninguna.