Mannlíf

Best skreyttu hús bæjarins
Glaðlyndir íbúar á Kirkjuvegi 1 sem voru viðstaddir þegar verðlaunin voru afhent.
Fimmtudagur 30. desember 2021 kl. 18:31

Best skreyttu hús bæjarins

Verðlaun fyrir best skreyttu hús og fjölbýlishús Reykjanesbæjar að mati bæjarbúa voru veitt fyrir jól.

Fín þátttaka var í skemmtilegum jólaleik á vefsíðunni Betri Reykjanesbær nú á aðventunni þegar íbúar gátu tilnefnt og greitt atkvæði þeim húsum sem þeim þóttu hvað best skreytt. Í staðinn fyrir að afhenda viðurkenningar í Aðventugarðinum eins og til stóð, þá var ákveðið í ljósi aðstæðna að heimsækja þau sem urðu hlutskörpust í leiknum. Það var Þórdís Ósk Helgadóttir, forstöðumaður Súlunnar, sem afhenti verðlaunin en það var Húsasmiðjan í Reykjanesbæ sem styrkti verkefnið í formi gjafabréfa og eru henni færðar bestu þakkir fyrir framlagið.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þó nokkur fjöldi húsa var tilnefndur og um 700 atkvæði voru greidd. Samkeppnin um efsta sætið reyndist afar hörð og var því tekin ákvörðun um að útnefna tvö hús sem best skreyttu hús bæjarins en það eru húsin við Heiðarbrún 4 og Vallarás 3. Eigendur húsanna hljóta að launum gjafabréf frá Húsasmiðjunni að verðmæti 40.000 kr.

Fyrir best skreytta fjölbýlishúsið bar Hornbjargið við Kirkjuveg 1 sigur úr býtum með þeirri umsögn í tilnefningu að það hafi alltaf verið svo jólalegt í gegnum árin með stílhreinum og fallegum rauðum jólaljósum. Íbúar Hornbjargs tóku vel á móti starfsmönnum Súlunnar og myndaðist afar skemmtileg stemning við afhendinguna. Húsfélagið í Hornbjargi hlýtur einnig gjafabréf frá Húsasmiðjunni að verðmæti 40.000 kr.

Það er Súlan verkefnastofa sem setti leikinn á laggirnar sem fyrst og fremst var hugsaður til skemmtunar og til að vekja athygli á því sem vel er gert hjá íbúum Reykjanesbæjar. Nú er um að gera að kíkja á niðurstöður kosningarinnar á vefsíðunni Betri Reykjanesbær og bjóða fjölskyldunni á rúntinn til að skoða fallega skreytt hús bæjarins.



Heiðarbrún 4. Inga Rut Ingvarsdóttir,  Halldór G. Guðmundsson og Þórdís Ósk Helgadóttir ásamt Garðari syni hennar.


Vallarás 3. Þórdís Ósk Helgadóttir afhendir Marcin Hubert Kozlowski og fjölskyldu verðlaunin.