Íþróttir

Syndum - Landsátak í sundi hafið
Konráð Lúðvíksson er einn margra sem mæta reglulega í sund í Vatnaveröld í Reykjanesbæ.
Miðvikudagur 1. nóvember 2023 kl. 15:53

Syndum - Landsátak í sundi hafið

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands í samstarfi við Sundsamband Íslands stendur fyrir landsátaki í sundi frá 1. - 30. nóvember 2023. Syndum er heilsu- og hvatningarátak sem höfðar til allra landsmanna. Markmiðið með Syndum er að hvetja almenning til þess að hreyfa sig oftar og meira í sínu daglega lífi og nota meðal annars sund til þess.
Átakið var formlega sett á laggirnar árið 2021 og fer nú fram í þriðja skipti. Í átakinu taka landsmenn sig saman og synda hringi í kringum Ísland en í fyrra náðist að leggja að baki 10.2 hringi í kringum landið. 

Síðustu ár hafa sýnt okkur með óyggjandi hætti að góð heilsa er ómetanleg.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það er margt sem við getum gert til að bæta og viðhalda líkama og sál og allt telur. Íslendingar hafa verið duglegir að stunda sund enda búum við vel að góðum sundlaugum um allt land.

Sund er fyrir alla, óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi og er tilvalin þjálfunaraðferð sem styrkir hjarta- og æðakerfið, lungu og vöðva líkamans en er einnig frábær og skemmtileg tómstundaiðja sem öll fjölskyldan getur stundað saman.

Til þess að taka þátt þarf að skrá sig inn á www.syndum.is og fara í Mínar skráningar. Einfalt er að velja sér notendanafn og lykilorð og skrá synta metra. Þeir sem eiga notendanafn úr Lífshlaupinu eða Hjólað í vinnuna geta notað það til að skrá sig inn. Þeir sem eru þátttakendur í verkefninu eiga möguleika á að verða dregnir út og unnið frábæra vinninga. Á heimasíðu verkefnisins www.syndum.is  má finna skemmtilegan fróðleik og upplýsingar um allar sundlaugar landsins.