Blik í auga
Blik í auga

Íþróttir

Reynismenn yfirspilaðir á Egilsstöðum
Haraldur Freyr Guðmundsson, þjálfari Reynis, þyrfti að ná að kveikja í sínum mönnum sem hafa tapað þremur af síðustu fjórum leikjum. Mynd úr safni Víkurfrétta.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 7. september 2020 kl. 08:29

Reynismenn yfirspilaðir á Egilsstöðum

Í gær lék Reynir Sandgerði gegn Hetti/Huginn sem sat í næsneðsta sæti 3. deildar karla fyrir leikinn. Reynismenn, sem hafa setið á toppi deildarinnar í allt sumar, sáu aldrei til sólar í leiknum og í fyrri hálfleik réðust úrslitin þegar leikmenn Hattar/Hugins skoruðu tvö mörk gegn máttlitlum Reynismönnum.

Leiðindaveður setti mark sitt á leikinn og erfitt að eiga við boltann. Í fyrri hálfleik var eins og Reynismenn væru hreinlega ekki tilbúnir í leikinn og voru yfirspilaðir af heimamönnum. Það var svo á 8. mínútu að Höttur/Huginn skoraði fyrra mark sitt eftir hornspyrnu.

Áfram héldu heimamenn að stjórna leiknum og þeir bættu öðru marki við á 18. mínútu. Staðan því 2:0 í hálfleik.

Í seinni hálfleik gerðu Sandgerðingar tilraunir til að rífa sig í gang og gerðu þrjár skiptingar en Höttur/Huginn stóð í fæturna og héldu gestunum niðri.

Úrslit leiksins urðu því 2:0 og Reynismenn hafa þá tapað þremur af síðustu fjórum leikjum. Með tapinu í gær duttu þeir niður í annað sæti 3. deildar, tveimur stigum á eftir KV.