Íþróttir

Ræktin leiddi hann í kraftlyftingar
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 18. október 2020 kl. 07:14

Ræktin leiddi hann í kraftlyftingar

Suðurnesjamaðurinn Aron Friðrik Georgsson er margfaldur Íslandsmeistari í -120 kg. flokki í kraftlyftingum. Æfir á veirutímum í bílskúr tengdaforeldranna og sinnir formennsku í lyftingadeild Stjörnunnar í Garðabæ.

„Ég byrjaði í Crossfit og lóðalyftingar þar leiddu mig í kraftlyftingar. Svo var ég líka að hlaupa en sá fljótt að það var ekki alveg að gera sig fyrir rúmlega 100 kílóa mann,“ segir Aron Friðrik Georgsson, kraftlyftingakappi og margfaldur Íslandsmeistari í -120 kg. flokki. Aron er Suðurnesjamaður en býr núna í Hafnarfirði með fjölskyldu sinni og æfir kraftlyftingar hjá Stjörnunni í Garðabæ.

Aron Friðrik gerir gott betur en að æfa kraftlyftingar því hann hefur síðustu árin verið formaður  lyftingadeildarinnar. Hann stundaði grunnskólanám í Reykjanesbæ og útskrifaðist sem stúdent frá náttúrufræðibraut í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Reyndi svo fyrir sér í verkfræði í Háskólanum því stærðfræði lá vel fyrir honum en sá að það var ekki að gera sig fyrir hann. Eftir nokkur ár í starfi hjá Isavia tók hann viðskiptafræði í Háskóla Íslands og lauk námi þar 2017. Viðskiptafræðingurinn starfar nú hjá fyrirtækinu Klöppum Grænum lausnum sem sérhæfir sig í grænum lausnum á sviði umhverfismála. Kraftlyftingar eiga síðan hug hans allan þegar kemur að áhugamálum og þær eru orðnar að lífsstíl. Víkurfréttir heimsóttu kappann í bílskúr tengdaforeldra hans í Hafnarfirði þar sem hann æfir á veirutímum og spurðu hann út í lóðalyftingarnar.

Hnébeygjur allra meina bót

„Ég er búinn að vera keppandi í kraftlyftingum síðan 2015. Ég byrjaði síðla árs 2012 að mæta í ræktina en það var ómarkvisst og ég mætti í raun bara með óljósa hugmynd um að koma mér í form.

Ég hafði tekið grunnnámskeið í Crossfit 2011 og hafði lesið á netinu að hnébeygjur væru allra meina bót þannig að ég mætti í ræktina og tók hnébeygjur og bekk hér og þar. Svo um 2014 er sagt við mig að ég gæti nú alveg verið samkeppnishæfur í kraftlyftingum því mér gekk ágætlega að lyfta lóðum. Ég vissi ekkert um kraftlyftingar en hafði kynnst í ræktinni þáverandi Íslandsmeistara í kraftlyftingum, Dagfinni Ara Normann, sem sagði mér að skrá mig í Stjörnuna og þá gæti ég keppt. Þá færði ég mig úr því að lyfta í Sporthúsinu á Ásbrú/Kópavogi í lyftingadeild Stjörnunnar. Svo keppti ég á fyrsta mótinu í mars 2015 og í öðru mótinu í september 2015 þar sem ég set og bæti svo Íslandsmetið í hnébeygju í +120 kg. flokki en þá var ég 125 kg. Ég lyfti fyrst 263 kg. og svo 270 kg. Síðan þá hefur þetta bara verið lífsstíll.“

Keppnisgírinn

Þegar Aron var kominn í keppnisgír sá hann að það væri ekki svo galið að létta sig aðeins því möguleikarnir fyrir „léttan“ 125 kg. keppanda voru mun minni gegn þungu mönnunum og létti sig því í -120 kg. flokk þar sem hann keppir í dag. Þar á hann núna Íslandsmetið í hnébeygju. „Ég náði því fyrst árið 2018 með 290,5 kg. og svo þurfti ég að ná því aftur með 295 kg. í janúar 2019 og það stendur enn. Ferilinn hefur gengið vonum framan, ég bjóst ekki við því að koma 26 ára inn í íþrótt og gera nokkuð annað en að taka þátt. Ég hef unnið gullið í -120 kg. flokknum á Íslandsmeistaramóti núna þrisvar; 2017, 2018 og svo núna 2020. Árið 2019 ég var mótshaldari og nýkominn heim úr keppni á Ítalíu og keppti ekki. Síðasti sigur, núna síðla sumars, var smá varnarsigur þar sem ég tognaði frekar illa á æfingu tveimur vikum fyrir mótið og var tvísýnt hvort ég myndi geta tekið þátt. Það gekk þó mjög vel miðað við aðstæður og ég kláraði aðeins fimmtán kílóum frá mínum besta árangri í samanlögðu.“

Hvíldin mikilvæg

– Hvernig stundar þú æfingar og það er mörgum spurn, hvernig mataræðið er hjá lyftingafólki?

„Ég æfi þrisvar sinnum í viku og hver æfing er í kringum þrjá tíma. Sem fjölskyldumaður með tveggja ára skæruliða heima þá breytti ég úr fjórum æfingum á viku í þrjár og lengdi aðeins æfingarnar. Það hefur þó ekki komið að sök að mínu mati, hvíldin er vanmetin og gerir mikið fyrir líkamann. Því má þó ofgera eins og með allt. Samfara þessu var ég stjórnarmeðlimur í Kraftlyftingasambandi Íslands í tvö ár og ég hef verið formaður lyftingadeildar Stjörnunnar síðan byrjun árs 2018. Deildin þar er á mikilli siglingu en Covid-grýlan hefur þó haft áhrif. Við höfum þá lánað búnað til keppenda heim og ég hef æft á veirutímum í skúrnum hjá tengdó. Ég er sáttur að geta æft og hafa aðstöðuna en á sama tíma er maður sjaldan spenntur fyrir því að færa 400 kg. af stáli á milli húsa.“

Hvað mataræðið varðar þá fylgist hann með próteinmagni sem hann innbyrðir og kaloríufjölda. „Ég reyni að vera á bilinu 2.700 til 3.000 kaloríur á dag. Svo er ég óttalegur sælkeri og misjafnt hvernig það gengur,“ segir hann og hlær en bætir við að það skipti máli að gera sitt, borða, sofa vel og hvíla vel.

Lyftingar styrkja beinin

Aron var valinn af handahófi í rannsókn sem kannaði áhrif erfða á heilsu hjá Íslenskri erfðagreiningu. Þar kom í ljós að beinin í honum eru 30% þéttari en hjá meðaljóninum. „En það er ekki bara erfðatengt. Með auknu álagi, lyftingum í mínu tilfelli, styrkir líkaminn beinin. Ef maður gerir þetta rétt og fer varlega. Rannsóknir hafa sýnt að fólk með vöðvamassa getur lifað aktífara lengur. Þetta hefur góð áhrif á öldrun. Það eru mörg dæmi um það. Ég veit samt ekki hvað ég mun stunda þetta langt fram eftir aldri. Ef maður fer varlega og hugsar þetta sem langhlaup er hægt að vera í kraftlyftingum til æviloka.“

Breyttir tímar

Aron keppir í Kraftlyftingasambandi Íslands sem er hluti af Íþróttasambandi Íslands og hluti af því er að gangast undir lyfjapróf reglulega. Kraftlyftingasambandið var stofnað 2010 og var þá markmiðið að vera hluti af ÍSÍ og vera með lyfjapróf. Umræða um stera hefur oft komið upp og því skelltum við einni spurningu á kappann um þá:

– Þú ert sem sagt ekki að taka inn pillur til að hjálpa þér að lyfta meira?

„Nei, maður fer ekki að saxa á ævina með sterum,“ svarar hann að bragði.

Mikil viðurkenning

„Það var mikil viðurkenning fyrir greinina þegar kraftlyftingamaðurinn Júlían Jóhannsson var kjörinn Íþróttamaður ársins á Íslandi um síðustu áramót,“ segir Aron og þegar hann er spurður út í fræga íslenska lyftingakappa koma fljótt upp nöfn þekktra kappa á borð við Skúla Óskarsson og Jón Pál Sigmarsson. Það muna flestir miðaldra og eldri Íslendingar eftir þessum mögnuðu gaurum sem settu svip sinn á samfélagið.

Í kraftlyftingamótum er keppt í þremur greinum, hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu. „Bekkpressan og hnébeygjan liggja vel fyrir mér, svona stuttlappa,“ segir Aron og hlær og lyftir 205 kg. í miðju spjalli. Bætti svo um betur nokkru síðar í bílskúrnum hjá tengdó. VF með myndavélar á lofti og þetta má sjá í Suðurnesjamagasíni.

„Markmiðið fyrir þetta ár var að ná 300 kg. í hnébeygju og ég er bara fimm kílóum frá því. Þetta er ákveðinn múr, 300 kílóin. Við sjáum hvað setur. Mesta sem sem ég hef lyft í samanlögðu á móti er 760 kg. Það vantaði bara fimmtán kíló upp á það í sumar á Íslandsmótinu. Mótahald er í upplausn vegna Covid-19 og stefnan var að fara í mót erlendis. Vonandi verða Reykjavíkurleikarnir í janúar og EM á að vera í Svíþjóð 2021 og maður vonast til að komast í það. Það er mjög gaman að taka þátt í alþjóðlegum mótum og ég æfi til að ná mestum árangri í mótum,“ segir Aron Friðrik.