„Lífið hérna er yndislegt“
Disley Torralba býr á Tenerife þar sem hún starfar sem þjónustufulltrúi fyrir íslenska ferðaskrifstofur. Hún segir lífið á eyjunni vera ljúft og notalegt, þó að fyrstu mánuðirnir hafi verið erfiðir eftir flutninginn frá Íslandi.
„Fyrstu mánuðirnir voru mjög erfiðir,“ segir Disley. „En núna sé ég að þetta var alveg rétt ákvörðun hjá okkur. Nú er þetta bara þægilegt og lífið hérna er yndislegt.“
Frá Kúpu til Íslands – og svo til Tenerife
Disley er upprunnin frá Kúpu en flutti ung til Íslands. Fjölmargir íbúar Reykjanesbæjar kannast við hana úr Sundmiðstöðinni í Keflavík og Sporthúsinu. Hún flutti til Íslands með fyrrverandi eiginmanni sínum. Þau skildu og Disley fór aftur til Kúbu þar sem hún sótti æskuástina og flutti með hana til Íslands. Þar eignuðust þau tvö börn, tvo stráka, sem heita Jón og Jóhann.
Þjónustar íslenska ferðamenn
Í dag vinnur Disley sem þjónustufulltrúi hjá Sumarferðum, Plúsferðum, Úrval Útsýn og Heimsferðum. Hún sinnir bæði hópum og einstaklingum sem ferðast til Tenerife.
„Ég vinn tvær vikur í senn og er svo tvær vikur í frí. Á frídögunum hjálpa ég oft Íslendingum sem dvelja hérna, hvort sem það er að leigja bíl, finna lækni eða bóka skoðunarferð. Ég hef líka hjálpað fólki sem þarf túlkaþjónustu á spítölum eða hjá lögreglu. Það er lítið af fólki hér sem talar bæði spænsku og íslensku, þannig að það kemur sér oft vel.“
Tengslin við Reykjanesbæ haldast
Eins og áður segir bjó fjölskyldan áður í Reykjanesbæ. „Það er alltaf gaman þegar ég hitti fólk sem þekkir mig þaðan,“ segir hún og brosir. „Margir sem koma hingað í frí senda á mig á samfélagsmiðlum og spyrja um hitt og þetta, hvar er best að borða, hvað á að sjá, eða hvernig er veðrið. Ég fæ mjög mikið af fyrirspurnum og fólk hefur mikinn áhuga á Tenerife.“
Hún hefur einnig verið virk á samfélagsmiðlum, þar sem hún kynnir eyjuna fyrir ferðafólki.
„Ég byrjaði að setja inn myndbönd á TikTok og það fór strax á flug,“ segir hún. „Síðan hef ég haldið áfram að deila myndum og ráðum, og fólk hefur tekið mér ótrúlega vel. Það er líka hópur á Facebook sem heitir Tenerife tips þar sem ég set stundum inn ráð og myndir af áhugaverðum stöðum.“
Lífið á eyjunni
Disley býr með fjölskyldu sinni í rólegu hverfi nálægt flugvellinum, aðeins um fimmtán mínútna akstur frá ferðamannasvæðinu.
„Mér finnst gott að búa aðeins út úr öllu fjörinu,“ segir hún. „Ef okkur langar í ferðamannastemningu keyrum við bara niður í bæ. Annars njótum við þess að hafa ró og næði. Það er dásamlegt að geta gengið út að sjó hvenær sem er.“
Hún segir að íslenskir ferðamenn sem koma til Tenerife geti fengið nær alla þjónustu hjá henni og eiginmanni sínum.
„Hann tekur mikið af myndum fyrir hópa og fjölskyldur, þannig að fólk getur í raun fengið allan pakkann, þjónustu, túlkun og fallegar minningar í myndum,“ segir hún hlæjandi.
„Við seldum allt og fluttum með fimm töskur“
Fjölskyldan seldi nánast allt sem hún átti á Íslandi áður en flutt var út.
„Við fórum út með fimm ferðatöskur, ein þeirra var bara leikföngum barnanna,“ segir Disley. „Við skiljum allt eftir og ákváðum að byrja upp á nýtt. Það var frelsandi. Nú reynum við að lifa einföldu lífi og njóta þess.“
Engin hugmynd að flytja til baka
„Krakkarnir eru ekki spenntir að flytja aftur,“ segir hún. „Þeir geta gengið í skóla, farið á ströndina og eru úti að leika sér allan daginn. Þeir myndu aldrei vilja fara aftur í kuldann. En auðvitað hlökkum við til að koma heim í heimsókn, í frí.“
Aðspurð um lífið í umferðinni á Tenerife hlær hún:
„Þeir kunna ekkert að keyra í hringtorgum! Ég segi alltaf við Íslendinga sem leigja bíl: haldið ykkur á ytri hringnum! Ég lenti einu sinni í því að keyra í innri hring og það gerist ekki aftur.“
Hún segir veðrið á eyjunni almennt frábært, þó að hitabylgjur og calima-ryk geti gert loftið þungt.
„Þá verður maður bara þreyttur og fer að slaka á. En annars er veðrið alltaf gott, aldrei of heitt, aldrei of kalt.“
Þakklát fyrir viðtökurnar
Disley segir að Íslendingar taki vel á móti henni, bæði þeir sem koma í frí og þeir sem búa á Tenerife.
„Fólk hefur sýnt mér mikla hlýju. Sumir hafa meira að segja boðið mér í kaffi, og margir vilja fá mynd með mér þegar við hittumst,“ segir hún brosandi. „Ég er bara þakklát og ánægð. Lífið hérna er gott.“








