Íþróttir

Opið golfmót í Leiru til styrktar Special Olympics
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 30. júní 2020 kl. 09:41

Opið golfmót í Leiru til styrktar Special Olympics

Special Olympics á Íslandi efna til opins golfmóts á Hólmsvelli í Leiru 19. júlí. Lögreglumennirnir Guðmundur Sigurðsson og Daði Þorkelsson hvetja kylfinga til að fjölmenna í skemmtilegt golfmót þar sem allur ágóði mun renna til Special Olympics.

„Keppni í golfi er mjög í anda Special Olympics þar sem forgjöfin ræður ríkjum og kylfingar geta þannig keppt á jafnréttisgrundvelli sama hvernig getan er,“ sögðu þeir í stuttu spjalli við Víkurfréttir. Leikið verður með svokölluðu „Texas Scramble“-fyrirkomulagi þar sem tveir kylfingar leika saman í liði. Skráning er á vefsíðunni golfbox.dk

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Samfélagsleg verkefni hafa verið einkennandi fyrir samtökin og árið 1981 hófst samstarf Special Olympics International við lögregluna. Samstarfið er byggt á því að lögreglumenn hafa umsjón með kyndilhlaupi fyrir leika Special Olympics og eru meðlimir LETR (Law Enforcement Torch Run for Special Olympics) hátt í 150.000 frá yfir 50 löndum og standa að styrktarmótum fyrir Special Olympics og til að auka almenna vitund um samtökin.

Samstarf Special Olympics á Íslandi við íslensku lögregluna hófst með því að lögreglumenn hlupu kyndilhlaup fyrir Íslandsleika Special Olympics í  nóvember 2013.

Leikarnir voru í Reykjanesbæ og í maí 2014 var aftur kyndilhlaup lögreglumanna fyrir Íslandsleika Special Olympics sem haldnir voru í Reykjavík. Þetta vakti athygli og var mikilvægt skref í samstarfi Special Olympics á Íslandi og íslensku lögreglunnar og hefur verið endurtekið bæði í Reykjanesbæ og í Reykjavík auk þess sem íslenska lögreglan hefur komið að öðrum verkefnum Special Olympics á Íslandi.