Karlakórinn
Karlakórinn

Íþróttir

Maður áttar sig kannski ekki á framförunum
Myndir JPK og úr einkasafni
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 27. janúar 2024 kl. 06:13

Maður áttar sig kannski ekki á framförunum

Landsliðskonan og fjórföld körfuknattleikskona Íslands, Sara Rún Hinriksdóttir, hefur gengið til liðs við körfuknattleikslið Keflavíkur að nýju eftir að hafa spilað að mestu erlendis undanfarin níu ár. Sara spilaði síðast undir merkjum Keflavíkur árið 2019 þegar hún lék ellefu leiki í deild og úrslitakeppni en hún rifti samningi sínum við spænska liðið Sedis Bàsquet fyrr í þessum mánuði. Víkurfréttir heyrðu í Söru og byrjuðu á að spyrja hvernig tilfinning það væri að vera komin heim.

„Ég er ennþá að átta mig á því, ég hef ekki verið hér á þessum tíma árs svo lengi. Ég bað um að fara frá Sedis og þeir voru mjög skilningsríkir og leyfðu mér að fara. Ég er búin að vera úti í níu ár, litli bróðir minn var fjögurra ára þegar ég fór út en núna er hann að fara að fermast og tvíburasystir mín er komin með lítið barn svo núna langaði mig í fyrsta sinn að koma heim. Var komin með smá heimþrá,“ viðurkennir Sara Rún.

Var ekkert erfitt að velja á milli liða? Þér hafa væntanlega staðið opnar dyr hjá flestum liðunum hér heima.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Ég er með umboðsmann sem hjálpar mér í þessu og hann talaði við þau lið sem mig langaði að hann myndi hafa samband við.

Jú, þetta var alveg erfitt. Auðvitað er Keflavík alltaf fyrsta liðið sem maður vill fara í. Ég talaði við marga þjálfara og það eru svo margir flottir hlutir að gerast í kvennakörfunni, virkilegur metnaður í gangi og fullt sem maður væri til í að vera hluti af – en ég er mjög ánægð með valið mitt.“

Sara Rún samdi við Keflavík út yfirstandandi tímabil og segist ekki vera búin að ákveða neitt með framhaldið. Hvort hún fari út í atvinnumennsku eða eitthvað annað – hún er alla vega ekki nándar nærri hætt í körfubolta.

Hvernig hafa þessi níu ár verið, er þetta ekki búið að vera ævintýri?

„Jú. Ég fór fyrst í háskóla í fjögur ár og fyrsta árið mitt var mjög erfitt. Ég var mjög léleg í ensku og einhvern veginn að læra í háskóla á ensku og vera í nýju umhverfi, var erfitt – svo tók það mig alveg heilt ár að venjast körfunni þar. Þessi fjögur ár voru frábær, mjög erfið að sjálfsögðu, en ég myndi mæla með þessu fyrir þær stelpur sem hafa tök á því og vilja,“ segir Sara og bætir við að eftir háskóla hafi hún verið ákveðin í að einbeita sér að því að ná langt í atvinnumennsku.

„Ég er mjög ánægð því eftir háskóla hafði ég ekkert hugsað mér að fara í lengra nám, kannski bara seinna meir, en svo var haft samband við mig frá skóla í Englandi og í fyrstu leist mér ekkert á það en svo skoðaði ég skólann og sá að hann var virkilega flottur. Skólinn, Loughborough University, var kosinn besti íþróttaskólinn í heiminum og þarna var t.d. virkilega gott íþróttafólk sem var að taka þátt í Ólympíuleikunum. Ég stökk á þetta því þarna var ég að fá góða menntun og fékk skólagjöldin greidd.“

Ég fíla breska menningu alveg í tætlur

Í háskóla fór Sara í heilsutengt nám og útskrifaðist með BS-gráðu í „Health and Wellness“. „Ég hafði hugsað mér að fara í nám í líffræði en mátti það ekki út af körfunni, svo ég valdi það nám sem líktist því einna mest. Ég hef mikinn áhuga á því sem ég lærði í háskóla en ég sé meiri framtíð í viðskiptum og því fór í meistaranám í alþjóðaviðskiptum – og er að reyna að finna mér vinnu. Það væri draumur að finna vinnu sem væri blanda af þessu tvennu.“

Meistaranámið tók tvö ár og Sara spilaði körfu með liði skólans og þá lék hún einnig með Leicester Riders í ensku atvinnumannadeildinni. „Það var líka æði, ég fíla breska menningu alveg í tætlur og þetta var alveg svart og hvítt miðað við Ameríku. Það var samstarf á milli Loughborough og Leicester og ég spilaði einn leik í miðri viku fyrir skólann og svo um helgar spilaði með Leicester, það voru þá leikir í deild og bikar.“

Að hafa leikmann eins og Söru Rún hefur ábyggilega haft sitt að segja fyrir Leicester Riders því liðið vann WBBL-bikarinn í Bretlandi í fyrsta skipti með hana innanborðs.

Sara Rún með kærastanum sínum, David Forsyth, í París en þau kynntust í skólanum í Bretlandi.

„Eftir Bretland fór ég til Rúmeníu, sem var líka allt önnur upplifun. Það var mjög sérstakt, ég bjó í Constanta sem er við Svartahafið og þegar stríðið byrjaði [innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022] varð maður var við sprengingar þarna rétt hjá í Svartahafinu. Það var líka ævintýri.

Svo spilaði ég á Ítalíu í fyrra. Það er eiginlega uppáhaldsstaðurinn minn, maturinn, umhverfið – það var bara geðveikt,“ segir Sara og uppveðrast öll. „Ég bjó líka í Romagna-héraðinu sem er þekkt fyrir matarmenningu og svoleiðis.“

Skemmtilegasta og sterkasta deildin

„Svo var Spánn líka frábær. Það er örugglega skemmtilegasta lið sem ég hef verið partur af – og eru náttúrlega ógeðslega góðar. Deildin á Spáni er örugglega skemmtilegasta deildin sem ég hef spilað í, af því að við vorum í EuroCup líka og komumst í sextán liða úrslit þar og við vorum að ferðast út um allt. Ég missti af mjög mörgum leikjum af því að ég var meidd í byrjun tímabilsins en ferðaðist alltaf með liðinu, maður var að sjá allar þessar stjörnur og keppa á móti þeim – sem var rosalega skemmtilegt.

Spænska deildin er allt öðruvísi en aðrar deildir sem ég hef spilað í, rosalega hraður bolti og maður þurfti að hugsa mikið í sókninni. Við æfðum líka mjög mikið því þú þarft að vera hundrað prósent tilbúin fyrir leikina.“

Þetta tímabil hefur augljóslega skilað sér í miklum bætingum hjá þér, þú ert búin að vera valin körfuknattleikskona ársins núna fjögur ár í röð.

„Já, ég held það og maður áttar sig kannski ekki á því. Af því að ég var fyrst í Rúmeníu og fór svo til Ítalíu sem er betri deild, síðan til Spánar sem er enn betri deild. Maður áttar sig kannski ekki á framförunum þegar maður er á sama tíma að leika gegn sterkari andstæðingum. Það er alla vega tilfinningin sem ég hef.“

Sara er búin að leika sinn fyrsta leik með Keflavík á þessu tímabili og byrjar nokkuð vel. Fyrsti leikurinn var í átta liða úrslitum -bikarsins gegn Haukum og var hún stigahæst í liðinu þegar Keflavík vann stórsigur 57:91.

„Þetta er virkilega flott lið og skemmtilegt hvernig við erum eiginlega allar frá Keflavík og þekkjumst, ég held að ég hafi spilað með þeim öllum áður. Sverrir [Þór Sverrisson] og Elli [Elentínus Margeirsson] eru að stýra þessu liði mjög vel. Ég er búin að vera með þeim í nokkra daga og náði að æfa tvisvar með þeim fyrir leikinn og það er bara frábær andi í liðinu. Ég er bara að koma inn í þetta og vonandi næ ég að styrkja liðið,“ sagði Sara áður en hún bætti við að hún stefni á að vinna titla með Keflavík í ár, bæði Íslands- og bikarmeistaratitla.

Það var létt yfir meistarflokki Keflavíkur á æfingu daginn eftir að hafa tryggt sér sæti í undanúrslitum VÍS-bikarkeppni kvenna.