Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Íþróttir

Logi mætir aftur á parketið 39 ára gamall
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 9. maí 2020 kl. 10:48

Logi mætir aftur á parketið 39 ára gamall

Lék fyrst í meistaraflokki aðeins 16 ára í Ljónagryfjunni

Njarðvíkingurinn Logi Gunnarsson, einn besti körfuboltamaður landsins, er hvergi hættur og skrifaði undir samning við uppeldisfélag sitt nýlega. Logi veifaði samningnum með bros á vör skömmu eftir undirritun þegar  tíðindamaður Víkurfrétta hitti hann. Þetta er 24. árið sem hann leikur í meistaraflokki en Logi lék í áratug sem atvinnumaður erlendis. Kappinn verður 39 ára gamall á þessu ári og vonast til að ná samningi á næsta ári líka og leika þannig 40 ára í efstu deild á Íslandi.

„Maður er búinn að vera lengi í þessu og ég verð að segja að það var ansi sérstakt að þurfa að hætta leik þegar úrslitakeppnin var handan við hornið. Nú er ekkert annað að gera en að horfa til næstu leiktíðar og koma vel undirbúinn til leiks,“ sagði fyrirliðinn Logi Gunnarsson.

Public deli
Public deli

Njarðvík hefur að undanförnu skrifaði undir samninga við fleiri leikmenn í karla- og kvennaflokki.  Ólafur Helgi Jónsson er varafyrirliði Njarðvíkurliðsins en hann hefur nú sitt þrettánda leikár í úrvalsdeild. Þá samdi Jón Arnór Sverrisson einnig við félagið og þar áður framherjinn Mario Matasovic svo Njarðvíkurlið næstu leiktíðar er óðar að taka á sig mynd. Í kvennaflokki skrifuðu Vilborg Jónsdóttir og Bryndís María nýlega undir samninga við liðið.

16 ára í meistaraflokki

Logi lék fyrst með Njarðvík sextán ára gamall og hefur leikið með liðinu alla tíð að undanskildum tíu árum í atvinnumennsku með átta liðum. Hann var valinn besti leikmaður ársins á Íslandi árið 2001 og á að baki 147 landsleiki með Íslandi, síðast í undankeppni Eurobasket árið 2018. Ein magnaðasta karfa hans á ferlinum var án efa þriggja stiga skot á síðustu sekúndu sem jafnaði leik gegn Tyrkjum á Eurobasket 2017 og tryggði Íslandi framlengingu. Hann er einn þriggja leikmanna sem hefur skorað yfir 200 þrista með landsliðinu en hinir eru félagar hans, Guðjón Skúlason úr Keflavík og Njarðvíkingurinn Teitur Örlygsson. Logi á flesta landsleiki í Laugardalshöllinni eða tuttugu og átta. Hann hefur þrívegis orðið Íslandsmeistari með Njarðvík.

Nokkrir Keflvíkingar hittu á Loga þegar hann var að koma úr undirrituninni á dögunum. Í hópnum voru allt Keflvíkingar, knattspyrnumenn og körfuboltakappar,
f.v. Einar Orri Einarsson, Sævar Sævarsson, Albert Óskarsson, Davíð Þór Jónsson, Logi, Haraldur Guðmundsson og Magnús Sverrir Þorsteinsson.
VF-mynd/pket

Logi og Ólafur Helgi Jónsson, varafyrirliði liðsins, með Kristínu Örlygsdóttur, formanni deildarinnar, á parketinu í Ljónagryfjunni.