Langþráður sigur hjá Grindavík
Grindavík vann langþráðan sigur í Subway-deild kvenna í gærkvöld þegar liðið lagði ÍR í HS Orkuhöllinni. Grindvíkingum hefur vantað herslumuninn til að klára síðustu leiki en átján stiga sigur þeirra í gær var sannfærandi og aldrei í hættu. Keflavík hélt áfram sinni sigurgöngu og er enn með fullt hús stiga, í gær voru það Fjölniskonur sem þurftu að lúta í gras fyrir Keflvíkingum 72:91. Á sama tíma töpuðu Íslandsmeistarar Njarðvíkur sínum þriðja leik á tímabilinu þegar Valur mætti í Ljónagryfjuna.
Grindavík - ÍR 90:72
(24:18, 31:23, 18:20, 17:11)
Grindavíkurliðið hefur hægt og sígandi verið á uppleið en liðið vann Fjölni í fyrsta leik, síðan tóku við fimm tapleikir í röð þar til að loks vannst sigur í gær. Danielle Rodriguez hefur leitt liðið á flestum sviðum en í gær stigu fleiri leikmenn upp; Rodriguez, Thea Ólafí Lucic Jónsdóttir og Hulda Björk Ólafsdóttir voru hver um sig með átján stig. Danielle Rodriguez var með hæsta framlag liðsins, 25 framlagspunkta, en Hulda Björk fylgdi í kjölfarið með tuttugu framlagspunkta.
Fjölnir - Keflavík 72:91
(12:20, 19:24, 15:24, 26:23)
Áfram heldur sigurganga Keflvíkinga og ekkert lát er þar á. Anna Ingunn Svansdóttir fór fyrir liðinu í gær með 23 stig en Birna Valgerður Benónýsdóttir kom næst með tuttugu stig og þá Daniela Wallen með átján. Wallen lét mikið að sér kveða sem fyrr og var framlagshæst Keflvíkinga með 34 framlagspunkta.
Keflavíkurliðið hefur sýnt frábæra takta það sem af er tímabilinu, breidd liðsins er góð og taktík þjálfarans Harðar Axels Vilhjálmssonar, að skipta ört um leikmenn, hefur gengið fullkomlega upp. Að vera ávallt með ferska fætur og pressa stíft hefur ekki gefið andstæðingum Keflavíkur ráðrúm til að skapa
Njarðvík - Valur 69:80
(13:16, 20:21, 17:19, 19:24)
Titilvörn Njarðvíkinga hefur ekki staðið undir væntingum það sem af er tímabilinu í Subway-deild kvenna og tapaði liðið sínum þriðja leik í gær þegar Valskonur komu í heimsókn. Eins og oft áður fór Aliyah Collier, besti leikmaður Íslandsmeistaranna, á kostum og skoraði 36 stig. Collier spilaði allan leikinn í gær og var með 48 framlagspunkta ... en það vantar framlag frá liðsfélögum hennar. Næst Collier í stigaskorun var Bríet Sif Hinriksdóttir með níu stig, þá komu þær Lavinia Joao Gomes Da Silva og Raquel De Lima Viegas Laneiro með átta stig hvor.