Verne Global Atvinna
Verne Global Atvinna

Íþróttir

Keflvíkingar misstu flugið en féllu ekki
Annað mark Keflvíkinga var sjálfsmark eftir fasta fyrirgjöf frá Marley Blair. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 25. september 2021 kl. 19:02

Keflvíkingar misstu flugið en féllu ekki

Það var mikið í húfi fyrir bæði lið þegar Keflavík og Skaginn mættust á HS Orkuvellinum í lokaumferð Pepsi Max-deildar karla. Bæði lið voru í fallhættu, Keflavík dugði jafntefli en Skagamenn þurftu nauðsynlega að vinna. Keflvíkingar komust í tveggja marka forystu en á sjö mínútna kafla misstu þeir flugið og Skagamenn skoruðu þrjú mörk sem dugði þeim til sigurs og tryggði ÍA áframhaldandi veru í efstu deild. Þrátt fyrir tapið féll Keflavík ekki þar sem Breiðablik hafði betur gegn grönnum sínum í HK sem féll ásamt Fylki.

Það var ljóst að bæði lið komu til að sækja sigur. Keflvíkingar höfðu yfirhöndina til að byrja með og sóttu að marki ÍA. Skagamenn sóttu hratt á fámenna vörnina þegar færi gafst og á 15. mínútu fengu þeir dæmt víti úr skyndisókn en vítaskotið var langt yfir markið.

Við að fá dæmt á sig víti datt Keflavíkurliðið aðeins til baka og dæmið snerist við, Skagamenn sóttu ívið meira en Keflavík beitti skyndisóknum.

Skömmu fyrir leikhlé fengu Skagamenn upplagt færi þegar sóknarmaður þeirra komst í gegn en Sindri Kristinn Ólafsson í marki Keflavíkur átti gott úthlaup og varði vel en lá óvígur eftir. Það tók góðan tíma að hlúa að Sindra en hann gat haldið leik áfram.

Þegar komið var fram í uppbótartíma sótti Keflavík að marki ÍA og boltinn barst til Ástbjörns Þórðarsonar utarlega í teignum. Ástbjörn lagði boltann fyrir sig og átti gott skot sem endaði í samskeytunum fjær, óverjandi fyrir markvörð Skagamanna og Keflavík komið í forystuna. 1:0 í hálfleik.

Ástbjörn lætur vaða ...
... og boltinn steinlá í netinu.

Skagamenn höfðu tólfta leikmanninn í stúkunni

Í seinni hálfleik leit út fyrir að Keflavík hefði leikinn í höndum sér. Marley Blair jók muninn í 2:0 með á 64. mínútu þegar föst fyrirgjöf hans hafnaði í hönd varnarmanns ÍA og þaðan í markið.

Við markið voru leikmenn ÍA farnir að hengja haus en þeir fengu frábæran stuðning úr stúkunni sem hvatti liðið áfram þótt á móti blési.

Nú urðu kaflaskipti í leiknum og skyndilega var eins og allur kraftur væri úr Keflvíkingum. Skagamenn nýttu sér deyfðina sem var yfir heimamönnum og nú var eins og mörkin kæmu á færibandi. ÍA skoraði í þrígang á sjö mínútna kafla (68’, 71’ og 75’). Öll mörkin komu eftir föst leikatriði þar sem vörn Keflavíkur náði ekki að koma boltanum í burtu. Skelfilegar mínútur hjá heimamönnum því yrðu úrslitin þessi þýddi það að Keflavík þyrfti að stóla á sigur Breiðabliks til að halda sæti sínu í deildinni. Það gekk eftir og Keflavík endar í tíunda sæti deildarinnar, einu stigi fyrir ofan HK sem féll ásamt Fylki.

Frábær stemmning var á vellinum í dag enda áhorfendasvæðið þétt setið. Það má sérstaklega hrósa stuðningsmönnum ÍA sem voru áberandi á vellinum og hvöttu sína menn til dáða. Þeir létu vel í sér heyra og misstu aldrei móðinn og hafa ábyggilega kveikt í þeim gulklæddu.

Keflavík áfram í deildinni

Úrslitin þýða það að Keflavík heldur sæti sínu í deild bestu liða landsins en tímabilið er ekki búið. Um næstu helgi mætast Keflavík og Skaginn í undanúrslitum Mjólkurbikars karla upp á Skaga. Það væri gaman að sjá Keflvíkinga bæta upp sjö mínútna einbeitingarleysi og vonbrigði dagsins í dag og fara alla leið í úrslitaleik bikarkeppninnar.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta var á leik Keflavíkur og ÍA og má sjá myndir í meðfylgjandi myndasafni neðst á síðunni.

Keflavík - ÍA (2:3)| Pepsi Max-deild karla 25. september 2021