Flugger
Flugger

Íþróttir

Færin fóru forgörðum
Mathias Rosenord varði nokkrum sinnum ágætlega í leiknum en seinna mark HK verður þó að skrifast á hann. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 15. maí 2023 kl. 10:12

Færin fóru forgörðum

Útlitið batnar ekki hjá Keflvíkingum í Bestu deild karla en þeir hafa ekki unnið leik frá því í fyrstu umferð. Keflavík tók á móti nýliðum HK í gær og töpuðu með tveimur mörkum gegn engu. Keflavík situr nú í næstneðsta sæti deildarinnar með fjögur stig, jafnir KR.

Það eru slæmar fréttir fyrir Keflavíkinga verði Nacho Heras frá í einhvern tíma en hann hefur verið mikilvægur hlekkur í vörn þeirra.

Keflvíkingar hafa átt í vandræmum með meiðsli á leikmönnum og í gær urðu þeir snemma leiks fyrir áfalli þegar Nacho Heras þurfti að fara meiddur af velli (8') og gæti verið frá í einhvern tíma.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Leikurinn var frekar jafn og mikil stöðubarátta átti sér stað á milli liðanna. Nýliðar HK hafa byrjað mótið vel og eru með sjáfstraustið í botni. Á sama tíma hefur hvorki gengið né rekið hjá Keflvíkingum sem hófu mótið með sigri á Fylki en hafa síðan tapað fimm leikjum og gert eitt jafntefli.

Keflvíkingar voru nærri því að ná forystu þegar Viktor Andri Hafþórsson komst í ágæits færi en vörn HK hreinsaði nánast af línu í varnarmann og Keflavík fékk hornspyrnu sem svo ekkert varð úr. Bæði lið sköpuðu sér nokkur hálffæri í leiknum en það voru gestirnir sem komust yfir með marki eftir vel útfærða og einfalda skyndisókn upp vinstra megin, sending á fjærstöng þar sem HK-ingur koma á ferðinni og afgreiddi boltann snyrtilega framhjá Mathias Rosenord í marki Keflavíkur (41'). Staðan 0:1 í hálfleik.

Einföld uppskrift og mark.

Keflavík fékk prýðistækifæri til að jafna leikinn þegar um fimmtán mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Marley Blair, þá nýkominn inn á, braust þá upp hægra megin og gaf hættulega sendingu á Sindra Snæ Magnússon sem skaut framhjá nánast opnum marki af stuttu færi. Gestirnir refsuðu fyrir þetta því á 63. mínútu tvöfölduðu þeir forystu sína með marki beint úr aukaspyrnu. Aukaspyrnan var tekin frá vinstri og fast skotið í hornið fjær, markmannshornið. Rosenord hefði átt að gera betur þarna en hann var víðsfjarri því að ná til boltans.

Heimamenn settu aukinn kraft í sóknina það sem eftir lifði leiks en mörkin létu á sér standa og HK landaði sínum fjórða sigri á meðan fimmta tap Keflvíkinga er staðreynd.

Marley Blair hressti upp á sóknarleik Keflvíkinga með innkomu sinni. Hér er hann nálægt því að komast í gegn en varnarmaður HK greir vel og nær til boltans.
Það var ágætis mæting á völlinn en fyrir leik skrifaði Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflvíkinga, ágætis pistil á stuðningsmannasíðu Keflavíkur þar sem hann fór yfir mikilvægi þess baklands sem stuðningsmennirnir eru hverju félagi. Það er spurning hvort pistillinn hafi haft áhrif.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, ræddi við Frans Elvarsson eftir leik sem má sjá í spilaranum hér að neðan og myndasafn frá viðureigninni er neðst á síðunni.

Keflavík - HK (0:2) | Besta deild karla 14. maí 2023