Íþróttir

Elínborg heimsmeistari í pílukasti fatlaðra
Elínborg Björnsdóttir og Ásmundur Friðriksson
Þriðjudagur 6. ágúst 2024 kl. 10:15

Elínborg heimsmeistari í pílukasti fatlaðra

Elínborg Björnsdóttir varð heimsmeistari í flokki fatlaðra á Heimsmeistaramótinu í pílukasti sem fram fór í Edinborg á Skotlandi um helgina.

Elínborg vann sér inn rétt til þátttöku á mótinu með því að hafna í öðru sæti á Evrópumeistaramótinu sem fram fór á Spáni í apríl.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ásmundur Friðriksson vekur athygli á árangri Elínborgar og segir:

„Þetta er auðvitað magnaður árangur hjá þessari ungu konu sem hefur þurft að berjast fyrir lífi sínu og ná getu til að koma til baka.

Elínborg var afreks íþróttamaður í áratugi áður en hún lenti í bílsslysinu sem öllu breytti. Hún var margfaldur Íslandsmeistari í sundi sem ung kona og það eru 21 ár síðan hún hóf að keppa í pílukasti og var 10 ár í landsliðinu og keppti á fjölda móta innanlands og utan.

Elínborg og við sem höfum staðið að baki henni með aðstoð einstaklinga og fyrirtækja erum þakklát þeim öllum sem hafa gert Elínborgu kleift að sækja þau mót sem var grunnurinn að hún komst í úrslitin á heimsmeistaramótinu og sigraði svo glæsilega.

Ég óska Elínborgu innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur og skora á fólk að gleðjast með henni á þessari stóru sigurstund í lífi hennar, ekki bara sem heimsmeistari heldur sem sigurvegari á fötlun sinni sem hún er að ná frábærum árangri í með dugnaði og elju við æfingar og sjúkraþjálfurn.“