Opus Futura
Opus Futura

Fréttir

Víkurfréttir á tímamótum
Páll Ketilsson teiknar upp útlitið á iþróttasíðu blaðsins árið 1991. Útlitsteikning var skilað á þennan hátt til prentsmiðu þar til umbrot blaðsins var flutt til Víkurfrétta.
Þriðjudagur 16. september 2025 kl. 07:22

Víkurfréttir á tímamótum

Enn ein tímamót voru núna 14. ágúst þegar 45 ár voru liðin frá því fyrsta eintak Víkurfrétta leit dagsins ljós. Á þessum tímamótum eru líka breytingar hjá okkur á Víkurfréttum.

Skrifstofur Víkurfrétta fluttu úr Krossmóa í Reykjanesbæ að Hólmbergsbraut 13 í maí síðastliðnum. Eftir þrettán skemmtileg ár á þessum fjölsótta reit í bæjarfélaginu færðum við okkur norðar og erum nú orðnir nágrannar smábátahafnarinnar og Duus svæðisins.

Í sumarbyrjun breyttum við útgáfutíðni blaðsins sem nú kemur út hálfsmánaðarlega í stað vikulega. Við erum að upplifa breytingar í fjölmiðlun og útgáfu og höldum áfram að aðlaga okkur að þeim eins og við höfum gert í meira en fjóra áratugi. Við stefnum að því að gefa áfram út fjölbreytt bæjarblað en einnig munum við efla okkur í netheimum þar sem horft verður til frekari landvinninga í hlaðvarps- og sjónvarpsviðtölum.

Emil Páll Jónsson og Páll Ketilsson. Emil var meðeigandi Páls fyrsta áratuginn en sá síðarnefndi eignaðist fyrirtækið að fullu 1993.

Bílakjarninn
Bílakjarninn



Það er skemmtilegt að geta skoðað eldri blöð Víkurfrétta á veraldarvefnum en öll okkar blöð frá árinu 1980 eru aðgengileg ókeypis á vefnum timarit.is. Í upphafi lá blaðið frammi á hinum ýmsu stöðum í Keflavík og Njarðvík en Pósturinn tók svo við dreifingunni. Á upphafsári Covid 19, 2020, sagði Pósturinn þeim samningi upp en hann hafði dreift blaðinu inn á heimili fólks á Suðurnesjum í áratugi. Þá var horfið til upphafsins og nú er dreifingu blaðsins þannig háttað og er hægt að grípa með sér eintak á um 30 stöðum á Suðurnesjum og í Salalaug í Kópavogi. Ekki má gleyma því að blaðið er aðgengilegt á Víkurfréttavefnum strax kvöldið fyrir útgáfudag og nú er svo komið að fleiri lesa það þar en í prentaðri útgáfu en að meðaltali er blaðið opnað um 15 þúsund sinnum í hverri viku að meðaltali.

Í viðtali við fyrsta ritstjórann og einn af stofnendunum, Sigurjón R. Vikarsson, í 10 ára afmælisblaði VF, segir hann frá tilurð Víkurfrétta sem tóku við af Suðurnesja-tíðindum, forvera sínum. Víkurfréttir áttu að vera óháð frétta- og þjónustublað ásamt því að berjast fyrir öllum góðum málum, Suðurnesjum til góðs. Þeirri stefnu hefur verið fylgt frá upphafi. Í seinni tíð höfum við lagt áherslu á jákvæð málefni og umfjöllun en reynsla okkar allan þennan líftíma blaðsins verið sú að sú stefna höfði betur til lesenda bæjarblaðs. Á fyrstu árum Víkurfrétta var umhverfisvitund ef svo má kalla það, nokkuð fyrirferðamikil. Sagt var frá sóðaskap hér og þar og nöfn fólks sem höfðu ekki klárað að byggja hús sín jafnvel birt, eftir að bæjarfélögin Keflavík og Njarðvík höfðu birt það í fundargerðum sínum. Það sem vel var gert í umhverfismálum fékk líka pláss og margt sem svæðið var að berjast fyrir, t.d. í samgöngumálum, heilbrigðismálum og fleiru. Líklega hefur ekki verið barist fyrir neinu eins mikið og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Þeirri baráttu mun líklega seint ljúka en vert er þó að geta að þar hafa orðið mikil umskipti að undanförnu.

Undirritaður var á fundi sem innviðaráðherra efndi til nýlega og þar átti hann erfitt með að útskýra hvers vegna ýmis framlög frá ríkisvaldinu eru lægri til Suðurnesjum en annarra landshluta. Hvers vegna gengur t.d. svona hægt að tvöfalda Reykjanesbraut frá Fitjum í Njarðvík að flugstöðinni? Samkvæmt samgönguáætlun þá á það að gerast 2032. Nú upplifa ökumenn sem aka þennan fjölfarna veg sem þann hægfarnasta á svæðinu vegna gerð hringtorgs neðan Ásahverfis í Njarðvík. Það leiðir hugann að baráttu Suðurnesjamanna sem sögðu hingað og ekki lengra fyrir aldarfjórðungi síðan og lokuðu Reykjanesbrautinni til að knýja á tvöföldun. Það þætti eflaust of langt gengið núna og ljóst að slík aðgerð fengi ekki jafn mikinn stuðning í ljósi þess að þetta er lang stærsti vinnustaður Suðurnesja og einn stærsti á landinu. Það er skemmtileg staðreynd sem fylgir þessari lokun á brautinni en þann dag sem það gerðist hófst dagleg fréttaþjónusta á Víkurfréttavefnum, vf.is. Ritstjórinn var á brautinni og sendi fréttir símleiðis á ritstjórnarskrifstofuna. Síðan hefur ekki verið litið til baka og áfram verður unnið í því að vera með öfluga fréttaþjónustu á Suðurnesjum. Það má til gamans rifja það upp að vf.is var fyrsti miðillinn til að greina frá upphafi fyrsta eldgossins á Reykjanesskaga árið 2021.

Víkurfréttavefurinn er okkar daglegi miðill eða dagblaðið sem fyrsti ritstjóri VF sagði í viðtali árið 1990 að gæti orðið framtíðin.
Það er við hæfi við lok þessa pistils að þakka fyrir sig. Þakkir fá íbúar, sveitarfélög og eigendur fyrirtækja á Suðurnesjum sem hafa stutt dyggilega við VF frá upphafi.

Páll Ketilsson
ritstjóri.