Eitrað fyrir ketti í Keflavík?
Eigandi kattar í Keflavík hvetur aðra kattaeigendur til varkárni í Kattasamfélaginu á Facebook í kjölfar þess að köttur sem viðkomandi á varð skyndilega fárveikur í gærkvöldi. Farið var með köttinn á bráðamóttöku á dýraspítala á höfuðborgarsvæðinu. Þar var kötturinn í nótt þar sem ástandið á dýrinu var slæmt.
Í morgun fengu eigendur dýrsins svo að vita að kötturinn hafði komist í frostlög en hann er baneitraður fyrir ketti. Frostlögurinn veldur miklum vökvaskorti og eyðileggur nýrnastarfsemi. Af þessum sökum þurfti að aflífa dýrið.
Eigendur kattarins búa í gamla bænum í Keflavík en vita ekki hvar eða hvernig dýrið komst í frostlöginn.
Eigandi kattarins hvetur aðra kattaeigendur til að fylgjast með dýrum sínum og ef grunur er um að þau hafi komist í frostlög þarf að koma þeim sem fyrst til læknis, því ef lengri tími líður frá því þau taka inn frostlöginn, því minni líkur eru á að hægt sé að veita lækningu.
Á undanförnum árum hafa nokkrum sinnum borist af því fréttir að eitrað hafi verið fyrir köttum með því að væta fiskibita eða önnur matvæli upp úr frostlegi.
Frostlögurinn er sætur á bragðið og freistar kattanna. Lögurinn er bráðdrepandi og eyðileggur nýrnastarfsemi ef ekki er brugðist við fljótt.
Einnig er möguleiki á að dýrið hafi farið í poll þar sem frostlögur hafi lekið af bíl. Það er því full ástæða til að hvetja fólk sem er að bæta frostlegi á bíla sína að gæta að því að hreinsa upp það sem mögulega hefur lekið útfyrir. Þá má einnig hvetja aðra til árvekni og veita því athygli hvort verið sé að setja út matvæli í görðum sem dýr geta komist í.
Frostlögur (ethylene glycol) er sérstaklega hættulegur bæði köttum og hundum. Hér eru helstu áhrifin:
Eituráhrifin:
Frostlögur hefur sætt bragð sem mörg dýr sækjast í. Þegar hann er innbyrtur, umbreytist hann í líkamanum í mjög eitruð niðurbrotsefni (glycolaldehýð og oxalsýru).
Áhrif á nýru:
Efnin setjast í nýrnapíplur sem kristallar og valda mikilli skemmd. Þetta leiðir til bráðrar nýrnabilunar.
Einkenni:
Fyrstu klukkutímana eftir inntöku sýna dýr oft einkenni sem líkjast áfengiseitrun: skjálfta, óstöðugleika, uppköst, þorsta.
Eftir 12–24 klst. þróast ástandið yfir í alvarlegan nýrnasjúkdóm: dýrið verður mjög slapp, étur ekki, kastar upp, hættir að pissa eða pissar mjög lítið. Á þessu stigi er skaðinn yfirleitt óafturkræfur.
Dánarorsök:
Bráð nýrnabilun er helsta ástæðan fyrir því að kötturinn eða hundurinn deyr – eða þarf að vera aflífaður.
Í stuttu máli:
Frostlögur eyðileggur nýru katta og hunda með varanlegum hætti, oft á innan við sólarhring. Lífshorfur eru mjög slæmar ef ekki er gripið inn í nánast strax eftir inntöku.