Bragi Guðmundsson - Báruklöpp
Bragi Guðmundsson - Báruklöpp

Fréttir

Fyrsti ritstjórinn sá fyrir sér dagblað
Sigurjón R. Vikarsson við filmuskeytingu í Prentsmiðjunni Grágás árið 1990, á tíu ára afmæli Víkurfrétta.
Þriðjudagur 16. september 2025 kl. 15:52

Fyrsti ritstjórinn sá fyrir sér dagblað

Sigurjón R. Vikarsson rifjaði upp fyrstu árin þegar Víkurfréttir fögnuðu tíu ára afmæli árið 1990

Þegar Víkurfréttir voru tíu ára árið 1990 rifjaði Sigurjón Rúnar Vikarsson, fyrsti útgefandi og ritstjóri blaðsins, upp hvernig hugmyndin kviknaði. Hann sagði ákvörðunina að stofna Víkurfréttir hafa verið tekna í „einu æðiskasti“ þegar hann lagði niður Suðurnesjatíðindi. „Þetta var fyrst og fremst hugsað til að skapa atvinnu fyrir prentsmiðjuna og berjast fyrir öllum góðum málum, og þar hefur blaðið staðið fyllilega undir væntingum mínum,“ sagði hann.

Á tíu árum hafði litla uppfyllingarverkefnið vaxið í glæsilegt bæjar- og héraðsfréttablað. „Víkurfréttir hafa lagt ríka áherslu á að þjóna öllum þeim málefnum sem Suðurnesin varðar og er því mjög gott þjónustublað,“ sagði Sigurjón, sem taldi blaðið hafa orðið mikilvægur málsvari svæðisins.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Hann horfði líka til framtíðar og spáði frekari vexti: „Ef fram heldur sem horfir og núverandi stjórnendur halda sama þrótti, held ég að það sé ekki langt í að Víkurfréttir verði hálfgert dagblað, fimm daga vikunnar.“

Í fyrsta tölublaði Víkurfrétta var blaðinu fylgt úr hlaði með ávarpsorðum ritstjóra. Þar sagði að ritstjórn Víkurfrétta lagði ekki upp með stór orð eða draumóra, heldur var markmiðið einfalt: að gefa út frétta- og þjónustublað sem gæti orðið samfélaginu til gagns.

Prentararnir Stefán Jónsson og Baldur Baldursson með eitt af fyrstu tölublöðum Víkurfrétta nýkomið úr prentvélinni í árdaga blaðsins. Á myndinni að neðan er Sigurjón R. Vikarsson að vinna við prentfilmur blaðsins árið 1990.  Myndir úr safni Víkurfétta.

Í leiðaranum kemur fram að blaðið verði fyrst um sinn hálfsmánaðarrit, með von um að þróast í vikublað ef vel gengi. Dreifingin yrði ókeypis og blaðið aðgengilegt í verslunum á svæðinu. Aðaláherslan væri á Keflavík og Njarðvík, en sameiginleg málefni Suðurnesjamanna fengju einnig sitt rými. Lagt var upp með upplag upp á 2000 eintök.

Í lok pistilsins er vísað til þess að Víkurfréttir hafi ákveðna tengingu við Suðurnesjatíðindi, sem hætt höfðu útgáfu. Ástæðan væri einföld: slík útgáfa krefðist fleiri manna í vinnu en mögulegt var á þeim tíma. Víkurfréttir væru því ný tilraun til að halda úti óháðu blaði á svæðinu, þó í smærri mælikvarða en forveri sinn.

Dagblað Víkurfrétta á netinu

Þegar viðtalið við Sigurjón var tekið árið 1990 var netið eins og við þekkjum í dag í raun óþekkt fyrirbæri. Það var ekki fyrr en fimm árum síðar sem netið opnaðist almenningi og Víkurfréttir stukku strax á þann vagn og voru fyrsti fjölmiðillinn á Íslandi með efni blaðsins í opnum aðgangi fyrir lesendur. Þarna var efni blaðsins sett inn á vefinn vikulega. Árið 2000 hófst svo dagleg fréttaþjónusta á vf.is. Þar með má segja að dagblað Víkurfrétta hafi verið orðið að veruleika.