Fréttir

Ungt fólk VILL og GETUR haft áhrif
Hanna Borg Jónsdóttir, sérfræðingur hjá UNICEF á Íslandi, Ólafur Bergur Ólafsson umsjónarmaður ungmennaráðs Reykjanesbæjar, Betsý Ásta og Hermann Borgar, ungmennaráði Reykjanesbæjar og Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir, sérfræðingur. Málstofa um ungmennaráð og áhrif á stjórnsýslu. Mynd: UNICEF á Íslandi
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
laugardaginn 24. september 2022 kl. 11:00

Ungt fólk VILL og GETUR haft áhrif

„Það þarf að vinna stöðugt að því að opinn vettvangur fyrir ungmenni innan samfélagsins sé tryggður. Sumir vilja meina að börn og ungmenni hafi ekki áhuga á að láta skoðanir sínar í ljós en raunin er að börn og ungmenni eru stór réttindahópur sem þarf að lifa með þeim ákvörðunum sem fullorðna fólkið tekur núna í dag,“ segir í byrjun pistilsins „UngmennaRáð til ráðamanna“ eftir þau Hermann Borgar Jakobsson, Betsý Ástu Stefánsdóttur og Telmu Ósk Þórhallsdóttur. 
UNICEF hrifið af vinnu ungmennaráðsins

Hermann og Betsý eru formenn Ungmennaráðs Reykjanesbæjar en málefni og þátttaka ungmenna er þeim hugleikin. Ungmennaráðið hefur það hlutverk að vera rödd barna og ungmenna innan stjórnsýslunnar og þar með ýta undir lýðræðislega þátttöku barna og ungmenna. Ungmennaráð Reykjanesbæjar hefur unnið gott starf á síðustu árum og tóku þau Hermann, Betsý og Ólafur Bergur, umsjónarmaður Ungmennaráðs Reykjanesbæjar, þátt í pallborðsumræðum á ráðstefnunni „Tækifæri til áhrifa - ráðstefna um þátttöku barna“ sem UNICEF á Íslandi stóð fyrir á dögunum. Ráðstefnan var ætluð þeim sem starfa með börnum, aðilum innan stjórnsýslunnar sem taka ákvarðanir er varða börn og annað áhugafólk. „Reykjanesbæ gengur vel í verkefninu Barnvænt sveitarfélag og UNICEF er mjög hrifið af hvernig við vinnum með ungmennaráðið okkar. Við erum lýðræðisleg og vinnum hlutina nokkuð vel og eftir gildum UNICEF,“ segir Ólafur og Hermann bætir við: „Við hjá Ungmennaráði Reykjanesbæjar fórum í vinnustofur hjá UNICEF snemma á þessu ári og höfum verið að vinna með þeim í öðrum verkefnum. Það hefur gengið vel hjá okkur og við höfum vaxið mikið á stuttum tíma. Þau báðu okkur svo um að taka að okkur þetta skemmtilega verkefni, að taka þátt í málstofunni þ.e.a.s., og við að sjálfsögðu slógum til.“

Mikilvægt að allir fái sömu tækifærin

Aðspurð hvað kom þeim helst á óvart við málstofuna segir Hermann: „Það var mjög gaman að sjá hversu margir voru áhugasamir. Þetta sýnir okkur að það eru ekki bara við sem erum að vinna í því að gera betra samfélag og vettvang fyrir börn og ungmenni að koma sínum skoðunum á framfæri heldur er helling að fólki að vinna að því sama.“ Ólafur segir stöðu sveitarfélaga þó vera misjafna þegar kemur að þessum málum. „Starf ungmennaráðanna er ekki eins hjá öllum sveitarfélögum og það er ekki gott. Ég held að sveitarfélögin í landinu almennt þurfi að reyna að samræma staðla þegar kemur að þjónustu við ungmenni og börn. Það er mikilvægt að það séu sömu tækifæri fyrir alla sama hvar á landinu það er,“ segir Ólafur. 

Optical studio
Optical studio
UngmennaRáð til ráðamanna

Hermann og Betsý auk Telmu, fulltrúa Ungmennaráðsins á Akureyri, skrifuðu á dögunum pistil sem birtist á Vísi.is þar sem þau láta í ljós sína skoðun á mikilvægi ungmennaráða og rödd barna og ungmenna í lýðræðissamfélagi. „Alls staðar á landinu má sjá öflug ungmennaráð rísa og styrkjast en það sýnir okkur líka bara eitt: Ungt fólk VILL og GETUR haft áhrif. Sú brenglaða valda dýnamík milli fullorðinna og ungmenna sem er orðin svo rótgróin í samfélaginu er múr sem þarf að brjóta niður fyrir framvindu samfélagsins en ungt fólk mætir oft miklu mótlæti þegar það lætur rödd sína heyrast um þau mál sem þau vilja láta sig varða,“ er meðal þess sem fram kemur í pistlinum. Í honum má einnig finna tólf ráð til ráðamanna landsins um það hvernig best sé að vinna með börnum til að ná sem mestum ávinningi.
Aðspurð hvers vegna þau ákváðu að skrifa pistilinn segir Betsý: „Vegna þess að það skiptir okkur rosalega miklu máli að koma okkar skilaboðum á framfæri til þess að tryggja betri framtíð fyrir öll ungmenni.“ Ólafur Bergur er stoltur af pistlinum sem og starfi ungmennaráðsins og segir það vera forréttindi að fá að vinna með hópnum. „Þau eru framúrskarandi á allan hátt og það sést, það vilja allir vinna með okkur á landsvísu. Reykjanesbær er mjög heppinn að hafa svona sterkt ungmennaráð og ég held það muni skila sér í betri bæ,“ segir hann að lokum.