Aðsent

Tryggjum framtíð Grindvíkinga
Laugardagur 27. janúar 2024 kl. 06:04

Tryggjum framtíð Grindvíkinga

Rúmir tveir mánuðir eru liðnir frá því að náttúruöflin hröktu fjölskyldur af heimilum sínum og sundruðu rótgrónu og fallegu samfélagi Grindavíkur. Atburðurinn fyrir rúmri viku síðan þegar sprunga opnaðist og hraun rann um götur bæjarins og brenndi hús var síðan til þess fallinn að auka enn frekar álagið á bæjarbúa sem þegar lifa í fullkominni óvissu um afkomu sína, um menntun barnanna sinna og um framtíðina.

Það er gott að Alþingi sé loksins komið saman til að ræða þessa stöðu. Það hefði mátt gerast fyrr. Ég finn það að samstaða þingmanna með Grindvíkingum er algjör. Hér eru allir sammála um það þurfi að bregðast við og að það þurfi að gerast strax. Þessa samstöðu þarf ríkisstjórnin að virkja.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ég get ekki lýst vanmættinum og sorginni sem ég finn með Grindvíkingum gagnvart eyðingarkrafti náttúruaflanna. En samhugur og samkennd færa fólki ekki þak yfir höfuðið, fjárhagslegt öryggi og mat á borðið. Hröð handbrögð þingsins í fjárhagslegum stuðningi og uppbyggingu íbúðarhúsnæðis gera það hins vegar. Það er leiðin fram á við núna – og við megum engan tíma missa.

Við vitum ekki hvenær Grindavíkurbær verður aftur öruggur staður fyrir fjölskyldur til að búa sér heimili og ala upp börn. Og afstaða fólks til þess hvenær eða hvort það vilji snúa aftur er skiljanlega ólík. Þess vegna þurfum við skýra valkosti fyrir fólk sem tekur tillit til mismunandi aðstæðna og mismunandi skoðana íbúanna. Valfrelsi íbúanna verður að liggja til grundvallar þeim lausnum sem Alþingi ákveður. Það voru flutt inn 500 viðlagasjóðshús eftir eyjagosið fyrir 50 árum síðan og það er ekkert því til fyrirstöðu að hefja þá vinnu strax.

Ef allt fer síðan á besta veg og Grindavíkurbær verður aftur öruggur innan ársins þá yrði uppbyggingin ekki til einskis. Þvert á móti þá er þegar víðtækur húsnæðisskortur í landinu og hröð uppbygging væri þá aðeins til þess fallin að draga úr framboðsskortinum og bæta hag allra. Fórnarkostnaðurinn af því að ráðast í uppbyggingu strax er þar af leiðandi enginn.

Hér ríkir eining um að styðja við Grindvíkinga og hér ríkir að sama skapi eining um að sameiginlegir sjóðir verði nýttir til þess. Grindvíkingar eiga ekki sjálfir að bera kostnaðinn af þessari stöðu. Nú hefur ríkisstjórnin upplýst um aðgerðir til stuðnings Grindvíkingum sem lesa mátti um í fréttatilkynningu á vef stjórnarráðsins. Margar af þeim aðgerðum þekkjum við og þar er verið að bæta í, bæði vegna þess að upphæðirnar hafa reynst of lágar en einnig að fyrri stuðningur hefur ekki dugað til að koma öllum Grindvíkingum í viðundandi húsnæði.

Önnur úrræði virðast vera fyrirheit um að komið verði til móts við Grindvíkinga m.a. um að þeir geti losað þá fjármuni sem þeir eiga í húsnæði í Grindavík og geti þá nýtt þá til þess að koma sér fyrir annars staðar.

Ég lýsi fullum stuðningi við þessa aðgerð og geri þá kröfu um að þetta komist til framkvæmda sem fyrst.

Guðbrandur Einarsson,
þingmaður Viðreisnar í Suðurkjördæmi.