Aðsent

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar: Lúðrasveitarnám og söngleikjadeild
Föstudagur 1. september 2023 kl. 09:04

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar: Lúðrasveitarnám og söngleikjadeild

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar vill vekja athygli á því að skólinn býður upp á sérstakt lúðrasveitarnám fyrir byrjendur á blásturshljóðfæri og söngleikjadeild innan klassísku söngdeildarinnar ætlaða þeim sem hafa sérstakan áhuga á söngleikjum og sviðslistum. Lúðrasveitarnámið á blásturshljóðfæri er ætlað börnum sem eru í 3. og 4. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar og væru að sækja um nám við Tónlistarskólann í fyrsta sinn. Í stöku tilfellum gætu nemendur í 5. bekk verið teknir inn. Um er að ræða samfellt nám allt skólaárið en hljóðfæratímar verða styttri en venja er. Auk þess sem nemendur læri á spila á blásturshljóðfærið sem þeir velja sér, þá er markmiðið að þeir myndi lúðrasveit á haustönninni og kynnist því að vinna í tónlistarhópi.

Skólaárið sem nú er að hefjast er annað árið sem Tónlistarskólinn býður upp á sérstaka Söngleikjadeild, deild sem hefur það að markmiði að þjálfa nemendur í leiklist, söng, túlkun og hreyfingum á söngleikjasviði. Námið hentar öllum sem hafa áhuga á söngleikjum og sviðslistum eins og áður segir og er mjög gagnlegt fyrir nemendur sem stefna á að taka þátt í söngleikjum eða nemendur sem hyggjast fara í leiklistarnám eða söngleikjanám hérlendis eða erlendis. Deildin er er tveggja ára nám og ætluð nemendum í 9. og 10. bekk grunnskóla og nemendum í framhaldsskóla sem eru með lögheimili í Reykjanesbæ. Nemendur fá söngkennslu einu sinni í viku og hóptíma einu sinni í viku en í þeim tíma er farið í sviðsframkomu og  nemendum gefst tækifæri til að syngja saman í smærri eða stærri hóp þau lög sem verið er að vinna með hverju sinni. Nemendur fá svo undirleikstíma einu sinni í viku. Á seinna námsárinu bætist við sérstakur nótnalesturstími einu sinni í viku. Ef nemendur vilja halda áfram námi eftir að söngleikjadeild lýkur, flytjast þeir sjálfkrafa yfir í almenna söngdeild.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Nánari upplýsingar eru á vefsíðu Tónlistarskólans tonlistarskoli.reykjanesbaer.is eða á skrifstofu skólans í síma 420-1400. Skrifstofan er opin frá kl. 9 -13 alla virka daga.

Ennþá eru örfá pláss laus svo nú fer hver að verða síðastur að skrá sig í hvort sem væri, lúðrasveitarnámið eða söngleikjadeildina.

Haraldur Árni Haraldsson, skólastjóri.