Aðsent

Sigursetrið – þar sem lítil skref eru stórir sigrar
Fimmtudagur 7. september 2023 kl. 15:23

Sigursetrið – þar sem lítil skref eru stórir sigrar

Sigursetrið er ráðgjafafyrirtæki starfandi á Suðurnesjum sem býður upp á fjölbreytt og einstaklingsmiðuð úrræði fyrir börn, unglinga og ungmenni sem glíma við vanda á eftirfarandi sviðum; námslegan, hegðunarlegan, tilfinningalegan og/eða félagslegan vanda. Hvort sem birtingamynd vandans er heima fyrir, í skóla eða íþrótta/tómstundastarfi þá bjóðum við upp á heildræna þjónustu í nálgun á vanda. Ráðgjafar okkar mæta fjölskyldum og einstaklingum í þeirra umhverfi og aðstæðum. Við útbúum aðgerðaráætlun með markmiðum, úrræðum, lesefni, fræðslu og fleira. Markmið okkar er valdefling. Við notumst við gagnreyndar aðferðir og veitum okkar skjólstæðingum fjölbreytt verkfæri sem þeir geta notað í vegferð sinni að betri líðan.

Árs starfsafmæli

Þann 1. september s.l. fögnuðum við eins árs starfsafmæli Sigursetursins. Á þessu fyrsta ári höfum við veitt foreldrum og forráðamönnum ráðgjöf, tekið að okkur verkefni fyrir Reykjavíkurborg, Hafnarfjarðarbæ og Grindavík. Veitt börnum, unglingum og ungmennum átján ára og eldri ráðgjöf og kennslu í verklegum þáttum. Ásamt því að bjóða upp á aðstoð vegna námslegra þátta; heimanámsþjálfun og einkakennslu. Eins höfum við verið með fyrirlestra og fræðslu fyrir starfsfólk.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Á fyrsta starfsári okkar sóttum við um tvo styrki. Annars vegar fyrir þróunarvinnu, til þess að þróa úrræðin okkar og aðferðir og gera þau aðgengilegri fyrir skjólstæðinga okkar, og hins vegar fyrir markaðssetningu, til þess að auglýsa fyrirtækið og koma okkur á framfæri. Hvorugan styrkinn fengum við. Þrátt fyrir það höfum við haldið áfram tvíefldar. Víða erlendis hefur samskonar þjónusta verið lengi við lýði. Við trúum því að það verði meiri eftirspurn eftir þeirri þjónustu sem við veitum þegar fram líða stundir, enda höfum við báðar það orð á okkur að vera stundum á undan okkar samtíð í nálgun okkar í skólastarfinu.

Það er þörf á fleiri og fjölbreyttari úrræðum

Við erum tvær konur, Anna og Jóhanna, sem höfum starfað í skólakerfinu í áratugi. Okkur þótti vera gríðarleg þörf á úrræðum og fyrir heildræna nálgun af þessu tagi hér á Suðurnesjum og þess vegna stofnuðum við Sigursetrið. Sem starfandi kennarar vorum við báðar oft komnar í mjög fjölbreytt hlutverk: Eins og að leiðbeina foreldrum og forráðamönnum í uppeldishlutverki sínu, takast á við mikinn hegðunarvanda með inngripum og markvissri eftirfylgni í skólastofunni, veita öfluga fræðslu um tilfinningalega líðan og andfélagslega hegðun, ásamt mörgu öðru sem hafði ekkert með almenna kennslu að gera heldur allt með almenna vellíðan og geðheilbrigði að gera. Með hverju árinu sem við vorum í kennslu fundum við fyrir aukinni þörf á sérhæfðari þekkingu og fagmennsku í starfi okkar sem náði út fyrir kennslufræðileg úrræði og menntun okkar sem grunnskólakennarar. Við mættum þeirri þörf með því að nýta endurmenntun okkar í starfi og gera okkur að meiri sérfræðingum til þess að takast á við flóknari og fjölbreyttari vanda barna sem birtust okkur í starfi og í leik. Anna bætti við sig sérhæfingu frá Ráðgjafar- og greiningarstöð sem felur í sér snemmtæka íhlutun þegar kemur að einhverfu barna og ungmenna. Eins lagði hún leið sína til Svíþjóðar þar sem hún menntaði sig sem afbrotasálfræðingur og starfar hjá Sigursetrinu sem ráðgefandi sálfræðingur. Ráðgefandi sálfræðingar veita ráðgjöf og kennslu í verklegum þáttum. Þeir starfa á gólfinu, í raunaðstæðum skjólstæðinga sinna og leiðbeina þeim og öðrum sem eru í aðstæðunum hvernig eigi að bregðast við og takast á við þær aðstæður sem koma upp hverju sinni. Þar getur átt við hegðunarvanda, samskiptavanda, kvíða og fleira. Anna hefur langa og mikla reynslu af störfum tengdum hegðunarvanda og sérkennslu. Jóhanna hefur sérhæft sig í að veita sértæk kennsluúrræði og námstækni. Hún er lagin við það að finna lausnir og aðrar nálganir með nemendum sem glíma við einhvers konar námsörðugleika og eiga erfitt með að tileinka sér lestur og nám. Eins hefur hún leiðbeint foreldrum í heimanámsþjálfun barna sinna og veitt fræðslu um lesblindu og áhrif hennar á líðan barna í námi, sem dæmi má nefna lágt sjálfsmat og kvíða. Jóhanna lauk nýverið náminu Farsæld barna sem er hluti af innleiðingu nýrra laga um samþættingu á þjónustu í þágu farsældar barna.

Lítill fjársjóður sem fáir vita af

Sigursetrið býður upp á þjónustu fyrir fjölskyldur, einstaklinga og sveitarfélög. Sérstaða Sigursetursins er sérfræðiþekking og áratuga reynsla okkar í að vinna með börnum og ungmennum sem glíma við sértækan og fjölþættan vanda. Við veitum persónulega þjónustu sem miðast við uppbyggingu einstaklinga til framtíðar. Það má segja að við séum falinn fjársjóður sem fáir vita af ennþá og höfum getað brugðist við nær samstundis þegar við fáum verkefni.

Anna D. Hermannsdóttir og Jóhanna Helgadóttir,
eigendur Sigursetursins.

www.sigursetrid.com/