Aðsent

Samvinnuverkefni Heilsuleikskólans Suðurvalla og Stóru-Vogaskóla
Laugardagur 20. janúar 2024 kl. 06:07

Samvinnuverkefni Heilsuleikskólans Suðurvalla og Stóru-Vogaskóla

Haustið 2023 kom upp sú hugmynd hjá textíl- og smíðakennurum í Stóru-Vogaskóla að gaman væri að vinna samstarfsverkefni með elstu börnum Heilsuleikskólans Suðurvalla. Kennarar beggja skóla funduðu og úr varð að sjötti og sjöundi bekkur og elstu leikskólabörnin ynnu saman að verkefninu. Einnig var ákveðið að nemendur skoðuðu báta og skip og það yrði þema verkefnisins.

Upphaf verkefnisins byggðist á umfjöllun og rannsókn á bátum og skipum. Farið var í vettvangsferðir þar sem alls kyns bátar voru skoðaðir og hugað að því hvernig þeir væru í laginu og hvað væri á þeim. Því næst komu krakkarnir úr Stóru-Vogaskóla í heimsókn á Suðurvelli þar sem börnin fengu að kynnast. Í þeirri heimsókn byggðu börnin stóran bát úr holukubbum og einingakubbum ásamt því að mála og föndra bát úr alls kyns efniviði á eitt stórt blað.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Því næst var komið að heimsókn leikskólabarnanna í skólann þar sem unnið var að verkefninu í smíða- og textílstofunni. Þar fengu nemendurnir að kynnast aðstæðum og ekki síst að vinna saman. Krakkarnir voru paraðir saman og höfðu sinn vinnufélaga í verkefninu, náðu að kynnast og vonandi að mynda tengsl sem fylgir þeim í skólagöngunni. Í fyrstu heimsókn leikskólabarnanna voru tilbúnir nítján skipskrokkar sem sjötti og sjöundi bekkur höfðu útbúið. Búið var að para leikskólabörn og grunnskólabörn saman í hópa. Hver hópur skrifaði síðan niður sínar hugmyndir af bátum eða skipum og hvað ætti að vera á þeim, fengu börnin á Suðurvöllum að taka stjórnina þar. Komu fram hugmyndir um segl, stýrishús, flutningaskip og fiskiskip svo eitthvað sé nefnt. Í framhaldinu máluðu krakkarnir frá Suðurvöllum skipsskrokkana.

Efniviðurinn í verkefnið var allur frá fyrirtækjum í nágrenninu. Allt efni sem annars átti að farga, bæði timbur og plast. Í textíl gerðu þeir sem vildu segl á skipin og einnig var málaður sjór á hvítt efni. Það efni voru gamlar gardínur sem voru í setustofu á unglingastigi.

Í næstu heimsókn í grunnskólann byrjuðu öll börn á því að mæta í smíðastofuna. Þar fengu börnin að negla rekkverk á skipin sín, krafðist það mikillar samvinnu á milli eldri og yngri barna. Börnin máluðu einnig bómu og mastur fyrir skipin sín og að lokum límdu þau mastur og stýrishús á þau. Voru skipin þá tilbúin.

Auk þess að vinna að bátaverkefninu gerðu nemendur sjötta og sjöunda bekkjar poka fyrir leikskólann og dýragrímur. Einnig voru gerðar jólakúlur sem þau yngri fengu að eiga. Allt er þetta gert til að auðga starf beggja skólanna. Samstarf sem þetta er ómetanlegt fyrir þau yngri að kynnast grunnskólanum ekki síður að hitta eldri krakka sem eru oft og tíðum áskorun fyrir þau yngri að hitta. Auk þess hafa eldri nemendur alltaf mjög gaman af að koma í leikskólann sem hjá mörgum þeirra var eitt sinn þeirra skóli.

Föstudaginn 12. janúar var síðan sett upp sýning á bæjarskrifstofu Voga þar sem skipin og myndir frá verkefninu er til sýnis. Fær sýningin að standa þar í viku eða til föstudagsins 19. janúar og hvetjum við fólk til að líta þar við og sjá afrakstur þessa samvinnuverkefnis.

Oktavía Ragnarsdóttir,
textílkennari Stóru-Vogaskóla.

Svanborg Svansdóttir,
smíðakennari Stóru-Vogaskóla.

Kristín Arna Hjaltadóttir,
deildarstjóri Heilsuleikskólanum Suðurvöllum.

Ragnhildur Hanna Finnbogadóttir,
aðstoðarleikskólastjóri Heilsuleikskólanum Suðurvöllum.