Flugger
Flugger

Aðsent

Grindvíkingar
Föstudagur 24. nóvember 2023 kl. 06:02

Grindvíkingar

Líkur eru á að fyrir höndum sé eitt stærsta samfélagslega verkefni sem þjóðin hefur tekist á við. Í slíkum aðstæðum er samtakamátturinn mikilvægur og það er ómetanlegt að finna þann samhug sem Grindvíkingum er sýndur nú.

Ég vil að Grindvíkingar viti að Samfylkingin mun leggja stjórnvöldum lið í að virkja samtrygginguna til stuðnings Grindvíkingum og öðrum sem kunna að verða fyrir tjóni.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ég hef hvatt stjórnvöld til þverpólitísks samtals um aðgerðir hvort sem þær eru efnahagslegar eða félagslegar, varði vinnumarkaðinn, fyrirtækin eða heimili Grindvíkinga. Verðmætin eru ekki aðeins í hlutum, fasteignum og fyrirtækjum heldur ekki síður í fólkinu sjálfu, listum og menningu ásamt andlegri og líkamlegri heilsu þeirra.

Geðheilsa

Rauði krossinn á Íslandi hefur gefið út góð ráð sem varða líðan í því ástandi sem Grindvíkingar búa við. Ég hvet alla þá sem hafa áhyggjur af sinni eigin líðan, barna eða annarra að hringja í Hjálparsíma Rauða krossins 1717. Einnig er netspjallið alltaf opið á 1717.is.

Þegar búið er við neyðarástand líkt og Grindvíkingar gera núna má búast við að því fylgi tilfinningalegt uppnám. Þetta er í raun ólýsanlegt áfall. Það er óþægilegt að finna fyrir vanmætti gagnvart náttúrunni. Óvissan tekur á og það er mikilvægt að huga að líðan sinni og þeirra sem næst manni standa. Það þarf einnig að huga að líðan lykilfólks í almannavörnum, björgunarsveit, lögreglu og þeirra sem vakta mikilvæga innviði. Þau þurfa afleysingu og hvíld.

Tryggingar

Ég vil hvetja Suðurnesjamenn til að kynna sér upplýsingar um Náttúruhamfaratryggingu Íslands á vefnum island.is. Fólk þarf að kynna sér hvað tryggt er með hamfaratryggingum og hvað ekki. Hvað telst til beinna tjóna eða óbeinna og hvaða tryggingar grípa við mismunandi tjón og aðstæður. Það er ekki of seint fyrir Suðurnesjamenn utan neyðarsvæðisins að yfirfara tryggingar sínar.

Á íbúafundi í Reykjanesbæ á dögunum var upplýst um að ef Svartsengi lokast og hitaveitan verður óvirk geta lagnir í húsum sprungið í frosti. Og það tjón ber húseigandinn. Þess vegna þarf fólk að kynna sér hvað hægt sé að gera til að fyrirbyggja tjón við slíkar aðstæður. Það er sannarlega þörf á bakvarðarsveit iðnaðarmanna sem gæti komið til hjálpar.

Stuðningur

Koma þarf á stöðugleika fjölskyldulífs eins og hægt er með tryggu húsnæði, frysta lán án tilkostnaðar fyrir Grindvíkinga, tryggja fjárhagslega afkomu og sjá til þess að ráðningasamband atvinnurekenda og launafólks  haldist á meðan óvissa ríkir.

Okkur hefur farnast best þegar við treystum á okkar besta fólk á sviði vísinda og almannavarna. Við búum við öflugar almannavarnir sem við getum treyst. Á sama tíma og ég sendi Grindvíkingum mínar allra bestu kveðjur vil ég þakka þeim viðbragðaðilum, vísindamönnum, heimamönnum, viðgerðarmönnum og fleiri mætti nefna sem hafa staðið vaktina dag og nótt vegna ástandsins.

Við alþingismenn þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að létta óþarfa áhyggjum af Grindvíkingum – nægar eru þær samt. Við erum í miðjum storminum og vitum ekki hvernig þessir atburðir enda en Grindvíkingar þurfa að  vita að stjórnvöld standi með þeim í gegnum storminn.

Oddný G. Harðardóttir,
þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.