NetogTV
NetogTV

Viðskipti

Reykjanesapótek nýtir íslenskt hugvit í persónusniðna þjónustu
Sigríður Pálína Arnardóttir, Kjartan Þórsson og Magdalena Margrét Jóhannsdóttir.
Fimmtudagur 1. febrúar 2024 kl. 10:04

Reykjanesapótek nýtir íslenskt hugvit í persónusniðna þjónustu

Reykjanesapótek hefur hafið samstarf við íslenska sprotafyrirtækið Prescriby þar sem skjólstæðingum er boðin persónusniðin þjónusta til að minnka eða hætta notkun sterkra verkjalyfja, róandi og svefnlyfja. Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Við erum svo spennt fyrir því að vera byrjuð að bjóða upp á þessa þjónustu og höfum fengið gríðarlega miklar viðtökur frá samfélaginu,“ segir Sigríður Pálína Arnardóttir, lyfjafræðingur og einn eigenda Reykjanesapóteks.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Magdalena Margrét Jóhannsdóttir, lyfjafræðingur og meðeigandi Reykjanesapóteks, tekur einnig fram að þau eru með hóp af menntuðum lyfjafræðingum sem vilja fá að leggja sitt af mörkum í veitingu heilbrigðisþjónustu og stuðla að heilbrigðara samfélagi.

„Við brennum fyrir það að stuðla að öryggi og heilsu allra. Í apótekið kemur gjarnan fólk sem notast hefur við svefnlyf, róandi eða verkjalyf til langs tíma og vill hætta notkun þeirra, enda farið að hafa veruleg áhrif á þeirra lífsgæði. Það er virkilega góð tilfinning að geta hjálpað okkar skjólstæðingum á þessari vegferð og það er svo gefandi að sjá fólk öðlast næstum því nýtt líf eftir að það hættir eða minnkar notkun á þessum lyfjum,“ segir Magdalena.

„Við stöndum sjálf í ákveðnu frumkvöðlastarfi með því að taka þátt sem apótek í að styrkja heilbrigðiskerfið og veita heilbrigðisþjónustu. Þess vegna var það svo kærkomið þegar við kynntumst Kjartani og þeim hjá Prescriby sem hafa þróað kerfi til að gera okkur kleift að geta veitt þá gæða þjónustu sem við vitum að við getum skilað til okkar skjólstæðinga,“ segir Sigríður Pálína.

Prescriby er íslenskt sprotafyrirtæki sem var upprunalega stofnað af læknum og forriturum til að tryggja öruggari meðferðir með sterkum verkjalyfjum, róandi og svefnlyfjum.

„Við vildum að fólk sem þarf á þessum lyfjum að halda, t.d. eftir skurðaðgerðir eða aðrar ábendingar, gæti fengið öruggustu meðferð sem að völ er á og að við gætum hjálpað þeim sem hafa notast við lyfin til langs tíma við að hætta á þeim eða minnka skammta,“ segir Kjartan Þórsson læknir og einn stofnenda Prescriby og bætir við:

„Það að við séum að byrja innleiðingu á kerfinu og að veita þessa þjónustu hér á Íslandi markar ákveðin tímamót og hefur hlotið mikla athygli erlendis. Við erum svo heppin að hafa hafið samstarf með framúrskarandi aðilum eins og Reykjanesapóteki og vitum að fleiri stofnanir munu bætast við enda er hér hagsmunamál sem snertir alla þjóðina. Við stefnum nú á að færa þessa þjónustu til allra landsmanna og gera íslenska heilbrigðiskerfið leiðandi á heimsvísu þegar kemur að öruggri meðferð á þessum lyfjum.“