Viðskipti

Notuð barnaföt í Víkurbásum
Ingvar Jónsson, Íris Guðmundsdóttir, Kári Oddgeirsson og Katrín Jónsdóttir, eigendur Víkurbása. VF-myndir/pket.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 1. nóvember 2020 kl. 07:56

Notuð barnaföt í Víkurbásum

„Fólk er almennt rosalega ánægt að geta keypt barnavörur á góðu verði.“

Það hefur orðið mikil vitundarvakning í heiminum á endurnýtingu og eru sífellt fleiri farnir að huga að þeim þáttum,“
segja tvenn ung hjón sem opnuðu nýlega verslunin Víkurbása sem er staðsett á Hafnargötu 6 í Reykjanesbæ. Þar getur fólk keypt og selt notaðar barnavörur.

„Verslunin gengur út á það að fólk leigir bás og kemur með sínar eigin vörur, við stöndum svo vaktina og sjáum um söluna,“ segja þau Ingvar Jónsson, Íris Guðmundsdóttir, Kári Oddgeirsson og Katrín Jónsdóttir, eigendur Víkurbása.

Vogar aðalskipulag
Vogar aðalskipulag

– Hvernig kom þessi hugmynd upp hjá ykkur?

„Í fyrstu Covid-bylgjunni kom sú hugmynd upp hjá okkur vinunum að stofna eigin rekstur hér í bænum okkar. Við urðum fljótt spennt fyrir þessari hugmynd því okkur fannst mikil vöntun á þessari tegund af barnavöruverslun í Reykjanesbæ.

Hugmyndafræðin heillaði okkur mikið og við tók langt undirbúningsferli þar sem huga þurfti að mörgum hlutum. Frá byggingu bása og uppsetningu tölvukerfis þá þurfti að gera allt frá grunni. Mikill kostur var að geta nýtt okkur alla þjónustu hér í bæ.“

Eftir að hafa búið í Noregi og Danmörku áttuðu þau sig á því hversu margir endurnýta og versla notaðar barnavörur.

„Þar kynntumst við menningunni í kringum samskonar búðir og þykir hún vera áhugaverð. Okkur finnst mikilvægt að fólk á Suðurnesjum geti sótt alla þjónustu hér í okkar bæ og höfum fulla trú á að verslunin okkar sé komin til að vera.“

– Er eitthvað sem þið leggið áherslu á?

„Við leggjum ríka áherslu á það að veita persónulega þjónustu og gera upplifunina ánægjulega fyrir alla. Við skipulögðum verslunina þannig að það sé nóg pláss á milli bása, snyrtilegt og björt rými.

Við settum okkur þá stefnu að halda leiguverði lágu til að stuðla að því að bæjarbúar noti sér okkar þjónustu framyfir að fara til Reykjavíkur. Allur aukakostnaður sem þekkist í samskonar verslunum höfum við innifalin í leiguverðinu.“

– Hvernig hefur þetta byrjað, eru Suðurnesjamenn ánægðir að fá svona verslun á svæðið?

„Móttökurnar hafa verið frábærar og hefur verið mikil ánægja frá okkar viðskiptavinum. Fólk er almennt rosalega ánægt að geta keypt barnavörur á góðu verði.

Nú er kominn tími til að heimamenn fari í gegnum skápana og geymslurnar og leyfa öðrum að njóta góðs af. Oft eru barnavörur mjög lítið notaðar og hægt að gefa þeim nýtt líf,“ segja fjórmenningarnir.

Leiga á einum bás kostar 5.490 krónur en verðið fer lækkandi ef teknar eru fleiri vikur. Víkurbásar taka 15% sölulaun. Verslunin er með tilboð í október og nóvember þar sem þriðja vikan er frí kaupi viðskiptavinurinn tvær vikur.