Viðskipti

Enn eitt áfallið hjá Höllu veitingakonu
Starfsfólkið var í mogunkaffi þegar ljósmyndara VF bar að. VF/pket
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 24. nóvember 2023 kl. 06:20

Enn eitt áfallið hjá Höllu veitingakonu

Afgreiðir mat í 150 manns en var með eitt þúsund fyrir hamfarirnar

„Við erum með mjög skerta starfsemi en vonumst til að geta bætt í. Við erum að afgreiða um 150 matarskammta á dag en vorum þegar allt var í gangi að afgreiða ofan í eitt þúsund manns á dag,“ segir Halla María Svansdóttir, veitingakona úr Grindavík.

Hún hefur fengið inni með hluta starfseminnar á góðum stað í Reykjanesbæ. Höggið vegna ástandsins í Grindavík hefur komið þungt niður á Höllu eins og mörgum fyrirtækjum í bæjarfélaginu. Hún er með þrettán ára gamalt fyrirtæki, tvo veitingastaði, veisluþjónustu og heimsendingarþjónustu á mat og fyrirtækið hefur vaxið jafnt og þétt á þeim tíma.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Við vorum á fundi fyrir stuttu síðan þegar ástandið var ekki orðið slæmt og við vorum bara að horfa til framtíðar. Hittum forráðamenn Isavia sem buðu okkur að lengja samninginn með veitingastaðinn í flugstöðinni. Við vorum til í það. Ég sagði að það ætti að ganga ef það kæmi ekki gos. Þó það hafi ekki enn komið þá má líkja ástandinu við stórt gos. Þetta eru hamfarir.“

Halla María Svansdóttir setur  djúsinn sinn vinsæla á flöskur.


Fyrir fimm árum settust þau Halla María og Páll maður hennar niður og gerðu rekstraráætlun áður en þau tóku ákvörðun um að hefja rekstur í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Fjárfestingin var mikil og því hugsuðu þau sig vel um. Þau fengu síðan tækifæri til að opna veitingastað sem þau og gerðu en nokkrum mánuðum síðar komu óvænt áföll. Flugfélagið WOW féll, Max flugvélar Icelandair voru stoppaðar og þetta hafði mikil áhrif á ferðamannastrauminn til Íslands. Ekki löngu seinna kom heimsfaraldur og að honum afstöðnum gátu Halla og Páll horft fram á veginn, eða héldu það. „Já, þetta er ótrúlegt. Margar hindranir og truflanir sem hafa komið á stuttum tíma,“ segir Halla þegar hún er spurð út í þetta.

Hún segir að þrátt fyrir allt standi þau ennþá uppi en nú sé bara að vona það besta. „Maður finnur það þegar maður vaknar á morgnana að maður saknar þess að geta ekki labbað í vinnuna og gert það sem við vorum að gera og gekk vel. Við og foreldrar okkar búum ekki lengur í bænum okkar heldur á tveimur stöðum á höfuðborgarsvæðinu og amma er í Borgarnesi. Vinkona mín var rétt hjá og börnin léku sér saman. Starfsfólkið mitt bjó nánast allt í Grindavík og er hér og þar. Sumar konurnar eru búnar að vera með mér frá upphafi. Við höfum verið eins og stór fjölskylda öll saman og konurnar og fjölskyldan eru hér með okkur í þessu. Þetta er rosaleg breyting en við vonum það besta. Getum ekki annað.“

Öll matvaran á veitingastaðnum í Grindavík endaði í ruslinu eftir sólarhrings rafmagnsleysi. Mynd/Kristinn Magnússon

Hér er viðtal við Höllu á veitingastaðnum í flugstöðinni árið 2021.